Ríkustu kóngar Afríku

Mohammed VI., kóngur Marokkó.
Mohammed VI., kóngur Marokkó. Af Wikipedia

Það eru nokkur hundruð konungdæmi í Afríku. Aðeins þrjú er stjórnarskrárbundin, Marokkó, Svasíland og Lesótó, en víða um álfuna má finna forn konungdæmi. Í flestum tilvikum hafa kóngarnir takmörkuð pólitísk völd, að minnsta kosti ekki formlega. Þeir þjóna hins vegar hlutverki andlegra leiðtoga og hafa ýmsar skyldur gagnvart þegnum sínum. 

Í úttekt Forbes-tímaritsins á auðæfum konunga Afríku kemur fram að sumir þeirra eru vel efnaðir. Margir fá umtalsverðar upphæðir greiddar frá ríkisstjórnum landa sína. Sem dæmi þá fær Goodwill Zwelithini kaBhekuzulu, konungur Zulu-fólksins í Suður-Afríku, 6 milljónir dala árlega, um 680 milljónir króna, til að standa straum af kostnaði við uppihald og rekstur heimilis síns. Þá nýtur hann ýmissa annarra hlunninda, svo sem ókeypis flugferða. Þá á kóngurinn stórt safn bíla, sem suður-afrískir skattgreiðendur borga fyrir. Þá fá margir kóngar álfunnar umtalsverða fjármuni frá samfélögum sínum. Ekki er óalgengt að auðugir þegnar gefi kóngi sínum peninga, bíla, jarðir eða hús. Í staðinn fá þeir blessun konungs. Sumir kóngarnir hafa töluverð áhrif, þó þau séu ekki stjórnarskrárbundin. Þeim er oft boðið að sitja í stjórnum fyrirtækja og stofnana.

En hverjir eru auðugustu kóngar Afríku? Blaðamaður Forbes lagðist í mikla vinnu til að afla upplýsinga um kóngana. Hann tók ekki með í reikninginn þá fjármuni sem kóngarnir sýsla með fyrir hönd þegna sinna eða ríkisstjórna, aðeins þeirra persónulegu eignir.

Sá auðugasti er Mohammed VI., kóngur Marokkó. Eignir hans eru metnar á 2 milljarða dollara, um 226 milljarða króna. Hann tók við krúnunni árið 1999 og hefur síðan þá komið á ýmsum umbótum í landi sínu, m.a. aukið réttindi kvenna.

Næstur í röðinni er Oba Obateru Akinrutan, einn margra konunga Nígeríu. Eignir hans eru metnar á 300 milljónir dollara, um 34 milljarða króna. Auðurinn kemur að langmestu leyti frá olíu. Hann tók við krúnunni árið 2010 og stofnaði m.a. Obat Oil, eitt stærsta einkarekna olíufyrirtæki landsins. Fyrirtækið á í dag yfir fimmtíu bensínstöðvar víðsvegar um Nígeríu.

Þriðji ríkasti konungur Afríku er að mati Forbes Oba Okunade Sijuwade. Sá er konungur í norðvesturhluta Nígeríu. Eignir hans eru metnar á 75 milljónir dala, um 8,5 milljarða króna. Hann tók við krúnunni árið 1980 og er mikill viðskiptamaður. Auður hans kemur m.a. frá olíu og fasteignaviðskiptum. 

Fjórði ríkasti konungur Afríku er Mswati III., konungur Svasílands. Eignir hans eru metnar á um 50 milljónir dala, um 5,7 milljarða króna. Mswati er þekktur fyrir kvensemi sína en hann á að minnsta kosti fimmtán eiginkonur. Villtar veislur hans eru einnig frægar. Auðæfin hefur hann komist yfir með fjárfestingum.

Að mati Forbes er Otumfuo Osei Tutu II. fimmti ríkasti konungur Afríku. Tutu ríkir yfir Ashanti-fólkinu í Gana. Ashanti-konungdæmið er á svæði í landinu sem er ríkt af gulli og þaðan kemur auður Tutu m.a. 

Sjá úttekt Forbes í heild hér.

Otumfuo Nana Osei Tutu II., einn af konungum Nígeríu.
Otumfuo Nana Osei Tutu II., einn af konungum Nígeríu.
Otumfuo Nana Osei Tutu II., konungur Svasílands.
Otumfuo Nana Osei Tutu II., konungur Svasílands.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK