Breytingar hjá Lýsingu

Lýsing hefur flutt í nýtt húsnæði við Ármúla 1 og …
Lýsing hefur flutt í nýtt húsnæði við Ármúla 1 og þá voru nýlega gerðar skipulagsbreytingar á stjórnun fyrirtækisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýlega flutti Lýsing sig í Ármúla 1 og tók upp nýtt skipurit. Þá hafa þrír nýir starfsmenn verið ráðnir til fyrirtækisins, en í tilkynningu kemur fram að félagið hafi þurft að styrkja innviði félagsins í sífellt flóknara lagaumhverfi samhliða skipulagsbreytingunum. Þá segir í tilkynningunni að Lýsing ætli á næstunni að brydda upp á nýjungum á fjármögnunarmarkaði.

Sverrir Viðar Hauksson, viðskiptafræðingur og MBA, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýs viðskiptaþróunarsviðs hjá Lýsingu. Sverrir hefur víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun, m.a. sem framkvæmdastjóri Heklu bílaumboðs, auk þess sem hann hefur starfað sem ráðgjafi á sviðinu, bæði sjálfstætt og hjá Deloitte/IMG og Capacent. Hann gegndi formennsku í Bílgreinasambandinu 2010–13 og var formaður stjórnar Grænu Orkunnar fyrir hönd bílgreinarinnar og iðnaðarráðuneytisins árin 2011 og 2012.

Guðrún Jónsdóttir er yfirmaður áhættustýringar hjá Lýsingu. Hún er viðskiptafræðingur að mennt með meistarapróf í fjárfestingastjórnun auk kandídatsprófs í sagnfræði. Guðrún starfaði hjá Fjármálaeftirlitinu sem sérfræðingur á lánasviði og framkvæmdastjóri verðbréfasviðs og hafði m.a. með höndum stjórn rannsókna eftirlitsins á málum tengdum bankahruninu frá haustinu 2008. Áður starfaði hún við rekstur fyrirtækja, bókhald og uppgjör, m.a. hjá Lyfjabúðum ehf. og á fjármálasviðinu hjá Síf hf.

Árni Huldar Sveinbjörnsson héraðsdómslögmaður hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur Lýsingar og framkvæmdastjóri innheimtu- og lögfræðisviðs. Hann hefur starfað sem lögfræðingur á fjármálamarkaði í tæpan áratug, fyrst á lánasviði Fjármálaeftirlitsins og síðar á lögfræðisviði Íslandsbanka við innri málefni og í sérverkefnum. Árni Huldar sat í stjórn Borgunar hf. á árinu 2013.

Starfsmenn Lýsingar eru tæplega 50 á fimm sviðum samkvæmt skipuriti sem tók gildi í maí sl. Forstjóri er Lilja Dóra Halldórsdóttir. Á skrifstofu forstjóra starfa Stefnir Stefnisson, forstöðumaður greininga, Sigurbjörg Leifsdóttir, verkefnastjóri sérstakra verkefna, og Þór Jónsson upplýsingafulltrúi. Framkvæmdastjórar auk þeirra sem áður er getið eru Arnar Snær Kárason á fjármögnunarsviði, Bergljót Benónýsdóttir á rekstrarsviði og Sighvatur Sigfússon á fjármálasviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK