3,3 milljónir vegna orðróms

Höfuðstöðvar Marels
Höfuðstöðvar Marels

Fjármálaeftirlitið og Marel náðu í lok apríl samkomulagi um að ljúka með sátt máli vegna brots Marel á lögum um verðbréfaviðskipti. Úr varð að Marel greiðir 3,3 milljónir króna til fjármálaeftirlitsins. Marel segir málið hafa hafist í kjölfar þess að orðrómur um forstjóraskipti hjá félaginu birtist í fjölmiðli þann 1. nóvember 2013.

Í gagnsæistilkynningu sem birt var á vefsvæði FME í dag segir að málsatvik hafi verið þau að 30. október 2013 tilkynnti Marel Fjármálaeftirlitinu um að tekin hefði verið ákvörðun um frestun á birtingu innherjaupplýsinga. Þann 1. nóvember 2013 um klukkan 13.20 hafi Marel hins vegar verið ljóst að trúnaður um umræddar innherjaupplýsingar var ekki lengur tryggður.

Sama dag, klukkan 15.25, var birt tilkynning með umræddum upplýsingum, þ.e. um forstjóraskipti hjá félaginu. „Liðu því um 125 mínútur frá því að málsaðila varð ljóst að skilyrði frestunar á birtingu innherjaupplýsinga voru ekki lengur til staðar þar til upplýsingarnar voru gerðar opinberar.“

Við ákvörðun sáttarfjárhæðar í málínu leit FME til þess að upplýsingaskylda er ein af grundvallarstoðum heilbrigðs og virks fjármálamarkaðar en reglum um meðferð innherjaupplýsinga er ætlað að treysta gagnsæi fjármálamarkaðar, jafnræði fjárfesta og heiðarleika í verðbréfaviðskiptum. „Þá hefur Fjármálaeftirlitið litið til þess að málsaðili er einn af stærri útgefendum hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, miðað við heildarveltu á því tímabili sem brotið átti sér stað. Ennfremur hefur verið tekið mið af samstarfsvilja málsaðila og því að um ítrekað brot var að ræða.“

Féllust á sáttaboð eftir vandlega íhugun

Marel sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að í kjölfar ákvörðunar stjórnar félagsins þann 30. október 2013 um ráðningu nýs forstjóra var FME þegar í stað tilkynnt að félagið hefði tekið ákvörðun um frestun á birtingu innherjaupplýsinga. Fyrirhugað hafi verið að tilkynna um forstjóraskiptin jafnskjótt og ákvörðun þess efnis hefði verið að fullu kynnt fyrir málsaðilum. „Vegna orðróms þess sem að framan er getið var ljóst að tilkynna yrði fyrr um breytingarnar. Í kjölfarið óskaði félagið tafarlaust eftir því við Kauphöll að viðskipti með bréf þess yrðu stöðvuð tímabundið og var tilkynning um forstjóraskiptin birt um tveimur klukkustundum síðar þann sama dag.“

Þá segir að FME telji að með hliðsjón af framangreindum orðrómi hefði Marel brotið gegn 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þar sem ekki hefði tekist að tryggja trúnað um umræddar upplýsingar og þær ekki birtar tafarlaust þegar ljóst varð að trúnaður um upplýsingarnar var ekki tryggður. 

„Rétt er að taka fram að FME gerir ekki athugasemdir við málsmeðferð og ferli innan félagsins í aðdraganda ákvörðunar um frestun á birtingu innherjaupplýsinga, við ákvörðunina sjálfa og í framhaldi af henni að þeim tímapunkti að orðróms var vart um ráðningu nýs forstjóra, heldur eingöngu um þann tíma sem leið fram að birtingu tilkynningar. Þegar vart varð við orðróminn var samstundis gripið til þeirra ráðstafana sem að framan greinir með það að leiðarljósi að tryggja jafnræði fjárfesta.“

Að endingu segir í tilkynningu Marels að það sé einlægur ásetningur félagsins að fylgja í hvívetna lögum og reglum á fjármálamarkaði og ábendingum eftirlitsaðila. „Bauð FME félaginu að ljúka málinu með sátt enda taldi FME umrætt brot ekki verulegt. Þó Marel telji skorta á viðmiðanir um hvað felist í orðalaginu „eins fljótt og auðið er“ í 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti með hliðsjón af þeim ráðstöfunum sem gripið var til af hálfu félagsins strax í kjölfar orðrómsins, féllst félagið á sáttaboðið eftir vandlega íhugun.“

Uppfært 13.05:

Upphaflega stóð í fréttinni að sáttin væri upp á 3,3 milljarða króna. Hún reyndist töluvert lægri og var fréttin lagfærð í samræmi við rétta fjárhæð.

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK