Strandhögg Wangs í Chicago

Wang Jianlin
Wang Jianlin AFP

Ríkasti maður Kína, Wang Jianlin, hefur tilkynnt um 900 milljóna Bandaríkjadala fjárfestingu sína í bandarísku borginni Chicago. Wang hyggst reisa skýjakljúf nærri Michiganvatni þar sem rekið verður fimm stjörnu glæsihótel auk lúxusíbúða og verslunarrýmis. Framkvæmdir eiga að hefjast á þessu ári.

Fjárfestingin er gerð í gegnum félag Wangs, Wanda Group, og er hluti af mun stærri fjárfestingaáætlun á Vesturlöndum. „Chicago-verkefnið er aðeins fyrsta skrefið í fjárfestingum Wanda í Bandaríkjunum,“ sagði í tilkynningu frá Wang. Þar kom einnig fram að Wanda Group muni hefja framkvæmdir við – eða fjárfesta í – fimm stjörnu hótelum í New York, Los Angeles og San Francisco á næstu tólf mánuðum.

Samkvæmt því sem Wang segir mun skýjakljúfurinn geyma 240 herbergja glæsihótel auk íbúða á almennum markaði og verslunarrýmis. Framkvæmdum á að vera lokið á árinu 2018 og hótelið tekið í notkun sama ár. Fjárfestingin er upp á jafnvirði rúmlega hundrað milljarða íslenskra króna.

Þrátt fyrir að vera fyrsta stóra fjárfestingaverkefni Wanda Group á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum hefur Wang farið víða á Vesturlöndum að undanförnu. Meðal annars keypti dótturfyrirtæki Wanda Group nýverið skýjakljúf í Madríd á Spáni og stórt íbúðarhúsnæði í London.

Skýjakljúfurinn sem Wang keypti nýverið í Madríd.
Skýjakljúfurinn sem Wang keypti nýverið í Madríd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK