Gjaldeyrisforðinn að verða óskuldsettur

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Ómar Óskarsson

Skuldir umfram eignir í erlendri mynt á efnahagsreikningi Seðlabankans námu að andvirði um 20 milljörðum króna í júní síðastliðnum, en þegar mest var í árslok 2009 námu þær yfir 190 milljörðum. Þegar tillit er tekið til þess að umtalsverðar eignir Seðlabankans, t.d. fjölmyntalán í tengslum við yfirtöku nýju bankanna á veðtryggðum lánum og kröfur á fallin fjármálafyrirtæki í vörslu ESÍ, verða líklega gerðar upp í erlendri mynt en teljast þó ekki sem erlendar eignir á efnahagsreikningi bankans, má segja að Seðlabankinn hafi þegar náð því marki að safna óskuldsettum forða. Þetta segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag, en tekið er þó fram að óskuldsetti hluti forðans sé þó ekki stór ennþá.

Almennt má segja að gjaldeyrisforði auki traust á hagkerfi mest þegar markaðir trúa því að seðlabanki hiki ekki við að beita honum, að sögn greiningardeildarinnar, en aukið traust á hagkerfi dregur síðan úr líkunum á hvers kyns áhlaupi. Þótt það hljómi ef til vill þversagnakennt má þannig segja að eftir því sem fleiri telji að Seðlabankinn veigri sér ekki við að nota gjaldeyrisforðann til inngripa, þeim mun ólíklegra sé að til þess komi.

Greiningardeildin segir það því jákvæð tíðindi að bankanum sé að takast að safna hreinni gjaldeyriseign, ekki síst ef stjórnvöld hyggjast stíga skref til losunar hafta á komandi mánuðum. Jafnvel þótt gjaldeyrisforðinn sé tiltölulega stór um þessar mundir, þá er skuldsetning hans einn þeirra þátta sem draga úr nytsemi forðahaldsins, enda telja fáir að Seðlabankinn sé reiðubúinn að ganga á gjaldeyrisforðann til þess að verja gengisstöðugleika ef afleiðingin yrði sú að steypa ríkissjóði í erlendar skuldir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK