Lægsta ávöxtunin í miðbænum

Þjóðskrá hefur reiknað út ávöxtun af leiguhúsnæði. Hún er nokkuð …
Þjóðskrá hefur reiknað út ávöxtun af leiguhúsnæði. Hún er nokkuð lág í miðbænum, meðan landsbyggðin kemur vel út. mbl.is/Sigurður Bogi

Ávöxtun af leigu á íbúðarhúsnæði er hvað lægst í miðbæ Reykjavíkur þegar miðað er við ársleigu og fasteignamat íbúða. Ávöxtunin er aftur á móti hæst á landsbyggðinni, þar sem hún er oft um og yfir 10%. Vestfirðir og Norðurland, utan Akureyrar, skera sig sérstaklega úr þar sem ávöxtunin getur orðið allt að 15%. Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er ávöxtunin aftur á móti milli 6% og 8%. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman.

7.297 samningar

Ársávöxtun leiguhúsnæðis er reiknuð sem hlutfall af ársleigu, fengna úr þinglýstum samningum og fasteignamati íbúðar. Við úrvinnsluna var m.a. sleppt samningum þar sem herbergjafjöldi íbúða er ekki þekktur og samningum um félagslegar íbúðir. Einnig þarf samningurinn að vera um alla fasteignina. Úrvinnslan byggist á 7.297 samningum sem þinglýst var frá lokum júní í fyrra til loka júlí í ár. Miðað var við fasteignamat 2015.

Ávöxtunin er skipt niður eftir fjórum flokkum íbúða; stúdíó íbúð, 2 herbergja íbúð, 3 herbergja íbúð og 4-5 herbergja íbúð. Þá er einnig gerður greinarmunur á því hvort leigusali sé einstaklingur, fyrirtæki eða fjármálastofnun.

Lægri ávöxtun hjá fjármálastofnunum

Lægsta ávöxtunin er hjá fjármálastofnunum, en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er stærsti hluti þeirra eigna á vegum Íbúðalánasjóðs og því má vænta að lægra leiguverð þar skýrist að einhverju leyti af leigusamningum milli sjóðsins og fólks sem leigir áfram eignir sem það hefur misst og er kannski ekki á markaðsverði.

Þegar einstaklingar leigja út eigin íbúð vestan megin við Kringlumýrarbraut geta þeir ekki gert ráð fyrir hærri ávöxtun en 7-8%, en í Breiðholti er ávöxtunin milli 8,4% og 9,9%. Í Reykjanesbæ er ávöxtunin allt að 10,2% á 2 herbergja íbúðum og svipaða sögu er að segja af Vesturlandi.

Allt að 15% ávöxtun á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum er ávöxtun einstaklinga 9,6% af 2 herbergja íbúðum, en rúmlega 15% af 3 herbergja íbúðum. Svipaða sögu er að segja um útleigu þegar eigandi er fyrirtæki (en ekki fjármálastofnun), en landsbyggðin kemur einnig út með hærra hlutfall þar en miðbær Reykjavíkur.

Þess ber að geta að þar sem miðað er við fasteignaverð en ekki markaðsverð eigna má segja að mat á verðmæti eigna sé almennt nokkuð varfærið, enda hafa eignir miðsvæðis hækkað hvað mest undanfarið og því ætti ávöxtunin þar jafnvel að vera enn lægri en þessar tölur gefa í skyn.

Lesa má frétt Þjóðskrár á vef stofnunarinnar, en þar er sundurliðun á tölunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK