Afkoma Já batnar milli ára

Hagnaður fyrirtækisins Já jókst um 54 milljónir króna á milli ára og nam 311 milljónum króna árið 2013. Fyrirtækið sér meðal annars um rekstur upplýsingavefjarins Já.is, útgáfu símaskrárinnar og rekstur þjónustunúmersins 1818, áður 118.

Já hefur á síðustu árum útvíkkað starfsemi sína með ýmsum hætti, meðal annars með aukinni áherslu á nýsköpun á sviði stafrænnar upplýsingamiðlunar og breytti til dæmis upplýsingavefnum Ja.is á síðasta ári. Þá myndaði fyrirtækið allt Ísland í 360 gráðum til að bæta enn frekar kortaupplýsingar á vefnum auk þess að hafa gefið út Já.is appið.

Sérfræðistörfum fjölgar á móti færri störfum í símaveri

Alls störfuðu tæplega hundrað manns hjá Já á síðasta ári og fækkaði þjónustufulltrúum en sérfræðingum fjölgaði. Meðal annars réði fyrirtækið í störf verkefnastjóra, hönnunarstjóra, viðskiptagreindarstjóra, viðskiptastjóra, hönnuðar og forritara.

„Síðasta starfsár var mjög gott ár í okkar rekstri. Við höfum lagt áherslu á að fjárfesta í framtíð félagsins á sviði stafrænnar þjónustu.“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já í tilkynningu.  „Viðskiptavinir Já geta bæði nýtt sér þjónustu Já endurgjaldslaust í appinu og á vefnum eða greitt fyrir sérstaka þjónustu eins og uppflettingar í síma í 1818. Við höfum litla yfirbyggingu og góðan rekstur sem gefur okkur svigrúm til að stunda nýsköpun og framþróun,“ segir hún. „Tækninni fleygir fram og við þurfum að vera í stakk búin til að mæta breyttum þörfum viðskiptavina okkar á sviði upplýsingamiðlunar. Árangurinn bendir til þess að okkur hafi tekist vel að mæta nýjum kröfum en þess má geta að Já hlaut viðurkenningu Creditinfo fyrr á árinu fyrir að vera fremst í flokki millistórra fyrirtækja sem teljast framúrskarandi hér á landi,“ segir Sigríður Margrét.

Já er í meirihlutaeigu Auðar I, fagfjárfestasjóðs sem er í eigu margra stærstu lífeyrissjóða landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK