Kaupmáttur hækkaði óvenjulega mikið

Kaupmáttur launa hefur ekki hækkað eins mikið í september og …
Kaupmáttur launa hefur ekki hækkað eins mikið í september og hann gerði í síðastliðnum mánuði síðan árið 1989. Eggert Jóhannesson

Kaupmáttur launa hefur ekki hækkað eins mikið í september og hann gerði í síðastliðnum mánuði síðan árið 1989 en samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun hækkaði hann um sem nemur 0,8 prósent. Er þetta afar óvenjuleg hreyfing að því er fram kemur í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í dag.

Oftar en ekki hefur þróunin raunar verið þannig að vísitala neysluverðs hefur hækkað töluvert umfram launavísitöluna í mánuðinum, öfugt við þróunina nú. Þannig hækkaði launavísitalan um 0,7% á milli ágúst og september á sama tíma og vísitala neysluverðs lækkaði um 0,1%. „Þessa myndarlegu hækkun á launavísitölunni má að verulegu leyti rekja til árstíðarbundinna þátta þar sem álagsgreiðslur og annað slíkt koma inn að nýju í mánuðinum eftir að hafa verið í lágmarki yfir sumartímann,“ segir Greining Íslandsbanka. 

2016 svipað og 2007

Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur launavísitalan hækkað um 6,2% en vísitala neysluverðs um 1,8%. Nemur tólf mánaða hækkunartaktur vísitölu kaupmáttar þar með 4,3% á tímabilinu. Hefur tólf mánaða takturinn hækkað nokkuð skarpt að undanförnu, en hann hefur ekki verið eins hraður og nú síðan í maí árið 2012. 

Reiknað er með 3,8% vexti í einkaneyslu á næsta ári og 2,8% árið 2016. Miðað við spá greiningarinnar verður vöxtur einkaneyslu einn helsti burðarás hagvaxtar á spátímanum þó ekki sé talið að einkaneyslan muni ná sömu hæðum á næstu misserum og hún gerði síðustu ár fyrir hrun. „Samkvæmt spá okkar mun einkaneysla að raungildi verða svipuð árið 2016 og hún var árin 2006/2007, en sé á hinn bóginn tekið tillit til fólksfjölgunar á tímabilinu mun einkaneysla á mann árið 2016 verða áþekk því sem hún var árin 2004/2005,“ segir í morgunkorninu.

Íslandsbanki að Kirkjusandi
Íslandsbanki að Kirkjusandi mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK