Fríhöfnin verði lögð niður

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sigurgeir Sigurðsson

Viðskiptaráð leggur til að Fríhöfnin ehf. verði lögð niður og einkaaðilum alfarið eftirlátið að sjá um verslunarþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að tekið verði fyrir net- og símaverslun í fríhöfninni og að komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði lögð niður. Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs.

Telur Viðskiptaráð að tilvist Fríhafnarinnar í núverandi mynd vinni gegn markmiði um heilbrigða samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Sé því rétt að gerðar verði ofangreindar breytingar á fyrirkomulagi fríhafnarverslunar hérlendis.

Í beinni samkeppni við smásala

Isavia ohf. rekur sex verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fjármálaráðuneytið fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Að sögn Viðskiptaráðs eru sumar verslanirnar í beinni samkeppni við innlenda smásala. „Verslanir þessar njóta opinberrar meðgjafar í gegnum skatt- og tollleysi og geta því boðið mun lægra verð. Í gegnum þennan aðstöðumun hefur fríhafnarverslun ríkisins náð til sín verulegri markaðshlutdeild – allt að þriðjungi í stórum vöruflokkum,“ segir í skoðuninni.

Markaðshlutdeild Fríhafnarinnar í áfengi og tóbaki er sögð 9%, í snyrtivörum er hún 32% og í erlendu sælgæti er markaðshlutdeildin 35%. Tekjur Fríhafnarinnar námu um átta milljörðum á síðasta ári, sem jafngildir 20 milljónum á dag. Viðskiptaráð áætlar, sé gert ráð fyrir að helming þessarar veltu megi rekja til komufarþega, að glataðar skatttekjur ríkisins vegna núverandi fyrirkomulags nemi um milljarði króna á hverju ári.

Stærstur hluti tekna Fríhafnarinnar er tilkominn vegna sölu á áfengi og tóbaki, eða 4.170 milljónir króna. Tekjur af sælgæti námu 1.270 milljónum og tekjur af snyrtivörum 1.420 milljónum. Að sögn Viðskiptaráðs er Fríhöfnin líklega stærsti einstaki söluaðilinn á snyrtivörum og erlendu sælgæti á Íslandi. Viðskiptaráð gagnrýnir harðlega að Fríhöfnin greiði ekki neysluskatta, sem auki kostnað smásala um 51% í tilviki snyrtivara. Í tilviki erlends sælgætis hækkar kostnaður um 38%.

Fríhöfnin nýtur meðgjafar

Því geti mikill munur verið á vöruverði til Fríhafnarinnar og annarra smásöluaðila í landinu. Bent er á, að í tilviki erlends sælgætis geti Fríhöfnin bætt við sig allt að 50% álagningu á sín innkaup án þess að verðið fari yfir vöruverð til innlendra smásala. Fríhöfnin njóti því ríkulegrar meðgjafar í samkeppni sinni við innlenda söluaðila. Þá er bent á, að á sama tíma og umsvif Fríhafnarinnar aukist á Íslandi, sé fríhafnarverslun á undanhaldi í nágrannalöndunum. Umfangsmikið markaðsstarf og netsala séu stunduð til að ná markaðshlutdeild af innlendum smásölum.

Eins er bent á að komuverslun á borð við þá sem Fríhöfnin rekur heyri til undantekninga í heiminum, enda dragi slík verslun úr kaupum komufarþega innanlands.

Samkeppnin frá útlöndum

Helga Jónsdóttir, stjórnarformaður Fríhafnarinnar, segir fríhafnarverslanir erlendra flugvalla helstu samkeppnisaðila komuverslunar Fríhafnarinnar, en ekki innlenda aðila. „Ætla mætti að verslun myndi færast úr landi yrði komuverslun Fríhafnarinnar lögð niður.“ Hún segir komuverslunina eiga stóran þátt í tekjum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. „Ef hennar nyti ekki við myndu tekjur flugstöðvarinnar minnka verulega, sem gæti haft í för með sér að hækka þyrfti álögur á flugrekendur og farþega.“

Þá telur hún hagnaðartölur ekki segja alla söguna. Síðastliðin fjögur ár hafi Fríhöfnin skilað um tíu milljörðum króna til rekstrar flugvallarins og til ríkissjóðs. Áfengis- og tóbaksgjaldið hafi skilað ríkissjóði 1,2 milljörðum króna á þessu tímabili. „Um 8,5 milljarðar hafa farið í rekstur flugvallarins, sem þýðir að fjármunir til rekstrar hans þurfa ekki að koma annars staðar frá, hvort sem það er frá ríkinu eða flugrekstraraðilum.“

Markaðshlutdeild Fríhafnarinnar.
Markaðshlutdeild Fríhafnarinnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK