188 milljóna króna gjaldþrot ELM

Lísbet Sveinsdóttir og Erna Steina Guðmundsdóttir, hönnuðir og eigendur ELM.
Lísbet Sveinsdóttir og Erna Steina Guðmundsdóttir, hönnuðir og eigendur ELM. Jim Smart

Rúmum 188 milljónum króna var lýst í eignalaust þrotabú hönnunarfyrirtækisins ELM sem lokaði verslun sinni á Laugaveginum fyrir um tveimur árum.

Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota í apríl 2012 en skiptum var lokið hinn 10. nóvember sl. Auk verslunarinnar á Laugaveginum rak ELM einnig verslun í Osló í Noregi auk þess sem vörurnar voru seldar í verslunum víða um heim. Fyrirtækið var stofnað árið 1999.

Seldu vörurnar í um 170 verslunum erlendis

Í viðtali við Morgunblaðið á árinu 2010 sagði Kristín Ýr Hrafnkelsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri ELM, að hönnunin væri seld í um 100 verslunum í Bandaríkjunum og um 70 verslunum í Evrópu til viðbótar. Sagði hún þá að í framtíðaráætlunum fyrirtækisins væri lögð áhersla á opnun sérverslana sem myndu eingöngu bjóða upp á vörulínur ELM ásamt fylgihlutum.

Eigendur ELM voru aðalhönnuðir fyrirtækisins, Erna Steina Guðmundsdóttir, Lísbet Sveinsdóttir og Matthildur Halldórsdóttir, auk fjárfestingafélagsins Auðar Capital, sem í dag heitir Virðing, eftir sameiningu við það síðarnefnda.

Nefndi Kristín við Morgunblaðið að eftir hrun hefðu nýju bankarnir haft augu sín á öðru en að lána inn í nýjar fjárfestingar. Hún sagði fatahönnun kalla á langan binditíma í fjármögnun og það væri eins og bankarnir hefðu ekki skilning á geiranum. „Þó svo að lán til fatahönnunar séu í raun ekki ósvipuð afurðalánum sjávarútvegsfyrirtækja,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið.

Tekið skal fram að Kristín lét af störfum hjá ELM þó nokkru áður en fyrirtækið fór í þrot og starfaði því ekki þar þegar starfsemi var hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK