Hagnaðist um 18,2 milljarða

Íslandsbanki við Kirkjusand.
Íslandsbanki við Kirkjusand. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 18,2 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við 15,4 milljarða króna á sama tímabili 2013. Hagnaðurinn jókst því um 2,8 milljarða króna á milli ára.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 13,8% samanborið við 13,4% á sama tímabili 2013, þrátt fyrir að eigið fé bankans hækkaði um 14% á milli ára úr 160 ma. kr. í 181 milljarð króna samkvæmt tilkynningu.

Hagnaður eftir skatta var 3,5 milljarðar króna á 3. ársfjórðungi samanborið við 4,2 ma. kr. á sama tímabili 2013. Arðsemi eigin fjár var 7,9% á fjórðungnum en var 10,6% á sama tímabili í fyrra.

Í fréttatilkynningu kemur fram að eiginfjárhlutfallið er í septemberlok 29,4% samanborið við 28,4% í lok árs 2013, og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 26,3% (árslok 2013: 25,1%).

Hlutfall vanskila umfram 90 daga var 3,1% (árslok 2013: 3,5%). Heildareignir bankans voru 931 milljarður króna í lok september en um áramótin voru þær 866 milljarðar króna. Þetta þýðir að heildareignir bankans hafi aukist um 7,5% á níu mánuðum.

Bankastjóri Íslandsbanka, Birna Einarsdóttir segist vera ánægð með afkomu bankans og að hún sé í samræmi við áætlanir. 

„Ég er ánægð með afkomuna á fyrstu 9 mánuðum ársins sem er í samræmi við áætlanir. Það verður þó áframhaldandi áskorun að styrkja grunnreksturinn með kostnaðaraðhaldi og auknum tekjuvexti. Við höfum lagt áherslu á að auka hagkvæmni í rekstri en lækkun á stjórnunarkostnaði var 6,4% milli ára. Útlán til viðskiptavina hafa  aukist um 54 milljarða króna á þessu ári.

Íslandsbanki hefur alltaf verið sterkur á sviði vöruþróunar á fjármálamarkaði og lagt áherslu á að bregðast við þörfum viðskiptavina á því sviði. Gott dæmi um þetta eru svokölluð fyrstukaupalán sem við kynntum á fjórðungnum en það eru fasteignalán á betri kjörum fyrir þá sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta skipti. Við erum einnig stöðugt að þróa  Íslandsbanka Appið með nýjum aðgerðum og sjáum 100% aukningu í fjölda færslna frá áramótum en samtals hafa 45 þúsund notendur hlaðið Appinu niður.

Um 5.000 viðskiptavinir Íslandsbanka eiga rétt á leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum sínum í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Leiðréttingin er fjármögnuð með sérstökum bankaskatti og gerir Íslandsbanki ráð fyrir að greiða um 2,4 milljarða króna í þann skatt á árinu. Mikilvægt er að þetta verði tímabundin skattheimta eins og kynnt hefur verið. Aukin skattheimta skekkir mjög samkeppnishæfni íslenskra banka við erlendar fjármálastofnanir í þjónustu við stærri fyrirtæki landsins,“ segir Birna í fréttatilkynningu frá bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK