Besti fjórðungur Eimskips í 5 ár

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. Eggert Jóhannesson

Þriðji ársfjórðungur ársins 2014 var besti fjórðungur Eimskips frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA og hagnað eftir skatta. Rekstrartekjur námu 119,6 milljónum evra samanborið við 113,5 milljónir evra á sama tímabili í fyrra og jukust um 5,3%. EBITDA nam 12,6 milljónum á þriðja ársfjórðungi og óx um 4,2% frá þriðja ársfjórðungi 2013. Bætt afkoma skýrist aðallega af auknu flutningsmagni til og frá landinu, einkum vegna flutninga á bifreiðum, byggingarvörum og makríl.

Hagnaður eftir skatta nam 7,5 milljónum evra á fjórðungnum og jókst um 2,4 milljónir evra eða 48,0% frá þriðja ársfjórðungi 2013, einkum vegna gengisbreytinga.

Í afkomutilkynningu félagsins er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að flutningsmagn til og frá Færeyjum hafi einnig aukist, einkum vegna aukinna flutninga á makríl og laxi. Vöxturinn skýrist þá einnig af auknu magni í frystiflutningsmiðlun og aukinni hagkvæmni í siglingakerfinu eftir breytingar á rauðu leiðinni og eftir að gráu leiðinni var bætt við á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. 

Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 332,8 milljónum evra og jukust um 1,8% frá fyrra ári. EBITDA nam 29,7 milljónum á tímabilinu samanborið við 29,2 milljónir evra á sama tímabili 2013. Flutningsmagn í kerfum félagsins á Norður-Atlantshafi á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 8,4% frá sama tímabili í fyrra og jukust tekjurnar um 2,6%. Magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 12,6% frá sama tímabili í fyrra, einkum vegna svokallaðra „inbound“-flutninga. Tekjur af flutningsmiðlun drógust saman um 0,4% á sama tíma en EBITDA af flutningsmiðlun jókst um 3,8%. „Inbound“ þýðir að Eimskip annast tollafgreiðslu og flutning alla leið á svokölluðum „door-to-door“-flutningum.

Rannsóknin skaðar ímynd félagsins

Varðandi rannsókn Samkeppniseftirlitins þá hefur Eimskip engar frekari upplýsingar um hana en þær sem þegar hafa verið birtar og félagið hafnar með öllu ásökunum um brot á samkeppnislögum. Rannsóknin, leki rannsóknargagna til fjölmiðla og fréttaflutningur RÚV hafa skaðað ímynd Eimskips og valdið hluthöfum félagsins tjóni.

Eimskip vinnur áfram að því að leita tækifæra til að fjárfesta í takt við þá stefnu félagsins að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi, með það að markmiði að vaxa og styrkja stöðu sína á mörkuðum utan Íslands. Unnið hefur verið að undirbúningi tvíhliða skráningar á hlutabréfum félagsins í tengslum við möguleg fjárfestingarverkefni og viðræður eru enn í gangi við Seðlabanka Íslands um tvíhliða skráningu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins, leki trúnaðarupplýsinga rannsóknarinnar til fjölmiðla og umfjöllun RÚV um rannsóknina hafa sett strik í reikninginn varðandi framgang tvíhliða skráningar bréfa félagsins á hlutabréfamarkað erlendis.

Ákveðið hefur verið að þrengja afkomuspá félagsins fyrir árið 2014 úr EBITDA að fjárhæð 37 til 41 milljón evra í 38 til 40 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK