Innflytjendur fái vörugjald endurgreitt

FA segir heildsala/innflytjendur eiga tvo kosti. Annars vegar að halda …
FA segir heildsala/innflytjendur eiga tvo kosti. Annars vegar að halda vörunni á sama verði og var fyrir 1. janúar þar til birgðir klárast. Hins vegar að lækka verðið og taka þannig á sig vörugjaldið, sem þeir séu búnir að greiða í ríkissjóð. Innflytjandinn stendur höllum fæti í samkeppninni, sama hvorn kostinn hann tekur. mbl.is/Kristinn

Félag atvinnurekenda (FA) hvetur stjórnvöld til að setja bráðabirgðaákvæði í lög um niðurfellingu vörugjalda um að innflytjendur fái endurgreitt vörugjald sem þeir hafa greitt af óseldum vörum. Þetta verði gert til að koma til móts við það ójafnræði sem myndi að óbreyttu skapast á  milli framleiðenda og innflytjenda um áramót.

Félagið hefur vakið athygli fjármálaráðuneytisins og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þessu ójafnræði sem geri það að verkum að innflytjandinn standi höllum fæti í samkeppni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í samtali við mbl.is, að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir að innflutningsfyrirtæki geti fengið endurgreiðslu á vörugjaldi af vörum sem þau eiga á lager um áramótin og hafa þegar tollafgreitt og staðið skil á gjaldinu til ríkissjóðs. „Þetta er talsvert vandamál fyrir mörg innflutningsfyrirtæki.“

Ólafur tekur raftækjainnflytjendur sem dæmi. „Í rauninni eru þeir búnir að vera taka á sig vörugjöldin í tvo mánuði - eftir að frumvarpið kom fram - af því að þeir sáu fram á selja ekki nokkurn skapaðan hlut í jólavertíðinni. Fólk myndi bíða með að kaupa raftæki þangað til fram yfir áramót,“ segir Ólafur.

Brýnt að fá niðurstöðu sem fyrst

Hann bætir við að það væri sanngjarnt ef menn fengju vörugjaldið endurgreitt af vörum sem þeir ættu á lager um áramótin. Enda greiði heildsalar vörugjöld og aðra tolla þegar varan kemur til landsins og er tollafgreidd, þ.e. áður en hún er seld.

Ólafur bendir á, að framleiðendur, t.d. matvæla- eða sælgætisframleiðendur, rukki aftur á móti vörugjöld við sölu á vörunni og skili gjaldinu einhverjum dögum síðar. Innlendir framleiðendur geti því með einföldum hætti tekið vörugjaldið af reikningum sem þeir dagsetja 1. janúar.

„Við erum búin að stinga upp á því að þarna komi bráðabirgðaákvæði um að fyrirtækin fái endurgreitt vörugjaldið á vörum sem þau eru búin að tollafgreiða en eiga á lager um áramót,“ segir Ólafur.

Spurður hvort hann hafi fengið viðbrögð, segir Ólafur að fjármálaráðuneytið hafi sagt að ekki standi til að gera breytingar í þessa veru. Á hinn bóginn sé þingnefndin að skoða málið, en ljóst sé að niðurstaða verði að fást í málið sem fyrst.

„Auðvitað er líka brýnt að klára samþykkt frumvarpsins sem fyrst þannig að verslunin í landinu geti farið að breyta kerfum og búa sig og sína viðskiptavini undir breytinguna,“ segir hann ennfremur.

Nánar hér

Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK