„Hafa farið fram af nokkru yfirlæti“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist engu nær um það hvers vegna hlutur ríkisins í Borgun hafi ekki verið seldur í opnu ferli eftir að hafa setið fund með bankastjóra Landsbankans. Hann óttast að hluturinn í Valitor verði heldur ekki seldur í opnu ferli.

Þetta sagði Þorsteinn á Alþingi í morgun, en þar kom fram að bankastjórinn, fulltrúi Bankasýslu ríkisins og forstjóri Samkeppnieftirlitsins hefðu komið á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun vegna sölu Landsbankans á Borgun og fyrirhugaðrar sölu á fyrirtækinu Valitor.

Sló ekki áhyggjurnar

„Það verður að segjast alveg eins og er að þessi heimsókn í morgun svaraði ekki þeirri spurningu hvers vegna hlutur ríkisins eða Landsbankans í Borgun var ekki seldur í opnu ferli. Hún varð ekki til þess að slá á áhyggjur þess sem hér stendur um að farið verði með hlutinn í Valitor eins og æskilegast væri, þ.e. að selja hann í opnu ferli. Þessi heimsókn varð heldur ekki til að slá á þær áhyggjur að hlutafélög í eigu ríkisins, þ.e. að verulega vanti upp á eigendaaðhald með þeim fyrirtækjum,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði ennfremur, að það hlyti að verða mjög fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta mál ætti eftir að þróast.

„Ég held að það verði mjög athyglisvert að fylgjast með næsta hluthafafundi í Landsbankanum þar sem ríkið fer jú með 98% hlutafjár í þeim banka. Ég held að það hljóti að vera að þeir menn sem hafa farið fram af nokkru yfirlæti gagnvart löggjafanum gangist þá við ábyrgð sinni sem þeir telja sig ekki þurfa að standa fyrir fyrir framan þingnefnd Alþingis, að þeir gangist þá við ábyrgð sinni á hluthafafundi,“ sagði Þorsteinn.

Mikilvægt að eyða allri tortryggni

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi málið einnig úr ræðustól á Alþingi í morgun og tók undir áhyggjur Þorsteins. 

„Það er grundvallaratriði þegar verið er að selja fyrirtæki sem við landsmenn eigum að allir viti af því að það sé verið að selja þau og allir geti boðið í þau. Það er sérstaklega mikilvægt til þess að eyða allri óþarfa tortryggni,“ sagði Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK