Höfðar nýtt mál og krefst 1,9 milljarða

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir.
Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir. Rax / Ragnar Axelsson

Mál Heiðars Más Guðjónssonar, eiganda fjárfestingafélagsins Ursus, gegn Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) og Seðlabanka Íslands (SÍ) var fellt niður að hans eigin kröfu í morgun. Heiðar hefur þegar höfðað nýtt mál með hærri bótakröfu.

Í upphaflega málinu krafðist Heiðar þess að fá greiddar bætur upp á rúmlega 1,4 milljarða króna vegna tjóns sem hann varð fyrir við söluferli Sjóvá á árinu 2010. Í samtali við mbl segist Heiðar þegar hafa sent frá sér nýja stefnu þar sem krafist er tæplega tveggja milljarða króna í bætur.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í morgun þarf Heiðar þó að greiða málskostnað er nemur um 1,1 milljón króna þar sem hann felldi niður málið.

Sami málatilbúnaður

Málatilbúnaðurinn er sá sami og í fyrra máli, þ.e. byggir á því að bindandi samkomulag hafi náðst við ESÍ þann 10. júlí 2010 um að hópur fjárfesta, sem Ursus fór fyrir, keypti tiltekinn fjölda hluta í Sjóvá á fyrirfram ákveðnu gengi. Auk þess hafi fylgt réttur til að kaupa fleiri hluti í Sjóvá á fyrirfram ákveðnu gengi. Ekki hafi verið staðið við þetta samkomulag.

Aðspurður hvers vegna hann sé að hækka bótakröfuna segir Heiðar að ekki hafi verið tekið tillit til heildartjónsins í fyrri stefnu. „Mér fannst algjör óþarfi að sleppa þeim með þennan hálfa milljarð,“ segir Heiðar léttur. Þá segist hann hafa þurft að senda inn fyrri stefnu fyrir þinghlé þar sem málið hefði að öðrum kosti fyrnst.

Brot á stjórnsýslulögum

Seðlabankinn og Eignasafn SÍ féllu frá því að staðfesta söluna á Sjóvá til fjárfestahóps sem Ursus fór fyrir haustið 2010 vegna þess að bankinn væri að rannsaka meint brot Ursusar á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Bankinn gaf sig ekki og sáu fjárfestarnir sig knúna til þess að segja sig frá viðskiptunum. Sérstakur saksóknari féll frá rannsókninni á hinum meintu brotum Ursusar og staðfesti ríkissaksóknari þá ákvörðun.

Ursus taldi þá ákvörðun SÍ og ESÍ að ljúka ekki viðskiptunum hafa verið ómálefnalega og ólögmæta, óháð tilvist bindandi samnings. Auk þess að baka sér bótaskyldu innan og utan samninga hafi ESÍ og SÍ brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar.

Heiðar Már kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna málsins í nóvember 2010 en málið hefur ekki enn verið afgreitt. Baðst Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, afsökunar á drættinum í aðsendri grein í Morgunblaðinu í lok júní eftir greinaskrif Heiðars þar sem hann kvartaði undan seinaganginum. Sagðist hann ætla að birta niðurstöðuna þegar hann kæmi aftur til starfa þann 1. júlí í sumar. Ekki hefur hins vegar orðið af því. 

Hefði hagnast um 2,2 milljarða

Hefðu kaupin gengið eftir hefði Ursus greitt rúmlega 2,5 milljarða fyrir rúmlega 367 milljón hluti í Sjóvá. Hver hlutur hefði verið að meðaltali á 6,86 kr.

Miðað við meðalútboðsgengi þegar félagið var skráð á markað hefði verðmæti hlutarins verið rúmlega 4,7 milljarðar. Hagnaður sá sem Ursus fór á mis við vegna vanefndanna, auk meintra saknæmra og ólögmætra athafna SÍ og ESÍ, er því tæplega 2,2 milljarðar króna.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK