Ímynd af sveittum strák með pítsu

Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, segir að efla þurfi hlut kvenna …
Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, segir að efla þurfi hlut kvenna í greininni. Þórður Arnar Þórðarson

Konum hefur fjölgað nokkuð í námi í tölvunarfræði á liðnum árum þótt þær séu enn einungis tæpur fjórðungur heildarfjölda nemenda. Árið 2014 innrituðu alls 960 manns sig í nám í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands en þar af voru 182 konur eða 23%. Er þetta þó hærra hlutfall en árið 2013 þegar konur voru 126 af 745 nemendum, eða 20%. 

Þetta kom fram á fundinum „Konur í tækni“ þar sem fjallað var um ásókn kvenna í tölvunarfræði og áhrif þess á tæknigeirann. Fundurinn var haldinn á vegum GreenQloud sem hefur staðið fyrir þessum viðburðum frá árinu 2013.

Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, ræddi um mikilvægi þess að auka hlut kvenna í náminu, bæði vegna þess að tryggja þurfi samkeppnishæft vinnuafl auk þess sem þörf sé á nýsköpun í tækni og að auka þurfi starfsmöguleika kvenna.

Auka þarf sýnileika greinarinnar

Hlutfall kvenna hefur aukist á liðnum árum var var til að mynda einungis 18% á árinu 2007, 16% á árinu 2008 og 15% árið 2009. Eru þessar tölur í samræmi við þróunina annars staðar en í nýlegri rannsókn kom m.a. fram að konur eru einungis um 18% þeirra sem ljúka grunnnámi í tölvunarfræði í háskólum í Bandaríkjunum. 

Arnheiður sagði að þrátt fyrir ójöfn hlutföll hefði hún aldrei mætt sérstökum hindrunum í námi eða starfi á grundvelli kyns. Starfið hentaði þvert á móti vel með fjölskyldulífi, þar sem jafnan sé hægt að vinna heiman frá sér.

Arnheiður telur betri aðsókn mega rekja til aukins sýnileika greinarinnar á liðnum árum og bendir meðal annars á UTmessuna sem fyrst var haldin á árinu 2011 og segir að um níu þúsund manns hafi mætt í Hörpuna á síðasta ári til þess að kynna sér nýjustu tæknistrauma.

Snýst um hugvit og sköpun

Til þess að auka áhuga enn frekar nefndi hún að mögulega þyrfti að gera fyrirmyndir sýnilegri fyrir stúlkur og stunda beina markaðssetningu á greininni gagnvart þeim. Tengt þessu atriði vakti nemandi í tölvunarfræði athygli á því að ímynd hennar af greininni hefði verið „sveittur strákur í tölvunni í dimmu herbergi með pítsu við höndina“, áður en hún skráði sig í námið, en að raunin væri hins vegar allt önnur, þar sem námið snýst um sköpunargleði og hugvit.

Þá sagði Arnheiður það einnig vera líklegt til árangurs að kynna námið og starfsmöguleika þess fyrir krökkum fyrr á lífsleiðinni, bæði í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Arnheiður benti á að gríðarleg eftirspurn væri eftir starfsfólki í upplýsingatækni og jókst þörfin í Evrópu fyrir starfsfólk með menntun á því sviði um 3% á árunum 2006 til 2010. Þá er talið að þörf verði fyrir um 900 þúsund starfsmenn á þessu sviði í Evrópu einni á þessu ári. Ljóst sé því að efla þurfi konur í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK