Flybe hættir að fljúga til Íslands

Breska lággjaldaflugfélagið Flybe hyggst hætta að fljúga til Íslands en félagið hefur flogið hingað til lands nokkrum sinnum í viku undanfarna sjö mánuði. Forsvarsmenn Flybe hafa ákveðið að einbeita sér þess í stað að öðrum áfangastöðum.

Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is en Flybe hóf að fljúga til Íslands í júní í fyrra frá ensku borginni Birmingham. „Upphaflega stóð til að starfrækja flugleiðina aðeins yfir sumarmánuðina en í maí, stuttu fyrir jómfrúarferðina, tilkynntu forsvarsmenn Flybe að flugið yrði í boði allt árið um kring þar sem eftirspurnin væri mikil. Það virðist hins vegar hafa dregið úr áhuganum undanfarið því í lok mars fer félagið sína síðustu ferð hingað til lands.“

Haft er eftir Paul Simmons, framkvæmdastjóra hjá Flybe, á vefnum að leiðakerfi félagsins sé sífellt endurmetið og eftir nýlega endurskoðun hafi verið ákveðið að hætta flugi til nokkurra áfangastaða, þar á meðal til Reykjavíkur. Þeim, sem áttu miða í ferðirnar sem ekki verða farnar, verður boðin endurgreiðsla. Flybe er annað flugfélagið á skömmum tíma sem hættir að fljúga til Íslands en belgíska flugfélagið Thomas Cook Airlines ætlar ekki að fljúga hingað í sumar frá Brussel líkt og undanfarin tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK