Skipt út fyrir ódýrara vinnuafl

Fjórum var sagt upp hjá Primera í gær og sex …
Fjórum var sagt upp hjá Primera í gær og sex um áramótin.

Samningum við íslenska flugliða flugfélagsins Primera Air hefur verið sagt upp en félagið hefur hins vegar tekið á leigu íbúðir á Ásbrú í Keflavík fyrir að minnsta kosti sex grískar flugfreyjur sem ráðnar voru til starfa á vegum áhafnaleigu um áramótin. „Þær eru á lægri launum og þetta er bara félagslegt undirboð,“ segir Kristinn Örn Jó­hann­es­son, trúnaðarmaður VR hjá Pri­mera Air. 

Kristinn var á meðal þeirra sex starfsmanna sem var sagt upp um áramótin en auk þeirra var fjórum til viðbótar sagt upp í gær. Sjö starfs­mönn­um á fram­leiðslu­sviði flug­fé­lags­ins Pri­mera Air var sagt upp í nóv­em­ber, fimm í októ­ber og níu voru látnir fara í sept­em­ber. Enn fleiri hafa þá látið af störf­um hjá flug­fé­lag­inu í haust að eig­in frum­kvæði þar sem þeir höfðu hvorki tök á, né hugn­aðist, að flytja til Lettlands en hluta stjórnenda var boðið störf þar í landi.

Öll starfsemi til Lettlands

Í ágúst stofnaði Primera Air nýtt flug­fé­lag í Lett­landi sem ber nafnið Pri­mera Air Nordic. Var þá sagt að fjár­stýr­ing og eignaum­sjón yrði áfram á Íslandi en sölu­starf­semi í Dan­mörku. Meðal þeirra sem misstu vinnuna í gær voru starfsmannastjóri flugfélagsins og starfsmenn á fjármálasviði. Samkvæmt upplýsingum frá Unni Sverrisdóttur, aðstoðarforstjóra Vinnumálastofnunar, stendur til að flytja alla starfsemi félagsins til Lettlands.

Stjórn­end­ur Primera Air voru boðaðir á fund með Vinnumálastofnun í desember þar sem þeir fengu að útskýra sína hlið málsins. Segir Unnur að Primera hafi sagt viðskiptalegar forsendur hafa ráðið ákvörðuninni og að þeir hafi reynt að halda starfsfólkinu í vinnu eins lengi og hægt var. Segir hún ekkert sem Vinnumálastofnun geti aðhafst í málinu.

Boðin launalækkun og fleiri vinnustundir

Í gær var greint frá því í sænskum fjölmiðlum að flugliðum Primera í Svíþjóð hefði verið sagt upp störfum en var þó boðið að halda áfram störfum á þeim kjörum er kveðið er á um í kjarasamningum í Lettlandi. Það þýðir 23% launalækkun auk fleiri vinnustunda. Átti þetta að hafa verið hluti af hagræðingaraðgerðum félagsins.

Kristinn bendir á það sama sé uppi á teningnum á Íslandi þar sem nú er leitað í ódýrara vinnuafl þótt starfsmönnum hafi almennt ekki verið boðið að flytja til Lettlands. Einungis hluti stjórnenda fékk boð þar um.Telur Kristinn að þrjár eða fjórar íslenskar flugfreyjur starfi enn hjá félaginu á Íslandi.

Sneiða hjá lögum um hópuppsagnir

Þá segir hann ljóst að verið sé að fara í kringum lög um hópuppsagnir með þessu en uppsagnirnar hefðu fallið undir lögin ef starfsfólkinu hefði verið sagt upp á einu bretti. Þegar uppsagnir falla undir lögin er þarft að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega þær og er þá hemilt að kalla eftir gögnum um grundvöll þeirra. „Það er verið að segja öllum upp af sömu orsökum en þeir dreifa því hins vegar yfir lengri tíma til þess að komast hjá þessu,“ segir Kristinn og bætir við að rétt væri að fá bókanir um mál sem þessi í kjarasamninga. 

Ekki náðist í stjórnendur Primera Air við vinnslu fréttarinnar. Primera Air er í eigu Andra Más Ingólfssonar og er hluti af Primera Travel Group.

Til stendur að flytja alla starfsemi félagsins til Lettlands samkvæmt …
Til stendur að flytja alla starfsemi félagsins til Lettlands samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.
Primera hefur tekið á leigu íbúðir á Ásbrú í Keflavík …
Primera hefur tekið á leigu íbúðir á Ásbrú í Keflavík fyrir grískar flugfreyjur. Oli Haukur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK