Hagnaður í fyrsta sinn frá 2007

Farice rekur tvo sæstrengi á milli Íslands og Evrópu
Farice rekur tvo sæstrengi á milli Íslands og Evrópu Rax / Ragnar Axelsson

Í fyrsta sinn síðan 2007 varð rekstrarhagnaður af starfsemi Farice fyrir fjármagnsliði og nam hann 260 þúsund evrum samanborið við 910 þúsund evru tap árið 2013.

EBITDA var 7,6 milljónir evra miðað við 6,7 milljónir árið 2013 og fjármagnskostnaður var 4,1 milljónir evra. Heildartekjur félagsins námu 13,6 milljónum evra og jukust um 11% frá fyrra ári. Handbært fé frá rekstri var 5,3 milljónir evra.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að áfram sé gert ráð fyrir bata í rekstri og er félagið í skilum með öll lán.

Sjá um samskipti Íslands við umheiminn

Farice er fyrirtæki á sviði gagnaflutninga- og fjarskiptasambanda við útlönd og telst starfsemi þess mikilvæg fyrir íslenskt samfélag vegna ábyrgðar á samskiptum Íslands við umheiminn. Fyrirtækið rekur tvo sæstrengi á milli Íslands og Evrópu og kaupir framhaldssambönd á landi og býr þannig til samskiptakerfi fyrir Ísland sem tengist öðrum samskiptakerfum í helstu tengistöðvum í Evrópu.

Í tilkynningu félagsins segir jafnframt að kerfisrekstur félagsins hafi gengið vel á síðasta ári og að ekkert hafi orðið rof á sambandi Íslands við umheiminn. Endabúnaður sæstrengja félagsins var endurnýjaður á síðasta ári sem margfaldar flutningsgetu kerfisins og félagið því sagt vel í stakk búið til að mæta þörf fyrir aukna bandvídd gagnavera og almennra notenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK