Viðsnúningur í rekstri MP banka

MP banki.
MP banki. Arnaldur Halldórsson

Hagnaður MP banka á síðari árshelmingi 2014 nam 494 milljónum króna samanborið við 159 milljóna króna tap á fyrri árshelmingi. Afkoma ársins 2014 er því 335 milljóna króna hagnaður eftir skatta, samanborið við 477 milljóna króna tap árið 2013.

Í afkomutilkynningu bankans segir að bætt afkoma í rekstri bankans á síðari hluta ársins 2014 endurspegli jákvæða þróun rekstrartekna bankans, sem jukust um 23% á milli árshelminga. Rekstrartekjur námu 1.836 milljónum króna á síðari árshelmingi, en voru 1.492 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrartekjur ársins í heild námu því 3.328 milljónum króna.

Umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir

Hagrætt var umtalsvert í bankastarfsemi félagsins á árinu og áhersla lögð á sérhæfða bankaþjónustu. Vegna hagræðingaraðgerðanna lækkaði rekstrarkostnaður um tæpar 600 milljónir króna á milli ára og fór úr 3.669 milljónum króna árið 2013 niður í 3.071 milljónir króna árið 2014. Nemur lækkunin um 16% á milli ára og um 10% á milli árshelminga 2014.

Eigið fé bankans í lok árs 2014 nam 5.597 milljónum króna og heildareignir námu 49.344 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall bankans hefur hækkað um 3,2 prósentustig á árinu og var 17,4% í árslok 2014, samanborið við 14,2% í árslok 2013. Hlutfall lausafjáreigna af heildareignum er 49% og lausafjárþekja (LCR) var 133% í lok ársins.

„Ég er mjög ánægður með árangurinn af umbreytingarferlinu sem við fórum af stað með á síðasta ársfjórðungi 2013. Við höfum náð að endurskipuleggja rekstur MP banka en á sama tíma bæði eflt hann og haldið fjárhagslegum styrk,“ er haft eftir Sigurði Atla Jónssyni, forstjóri MP banka, í tilkynningunni. „Það er gaman að sjá árangurinn af því starfi og viðvarandi hagnað af rekstri MP banka á seinni helmingi árs 2014.“

„Árangurinn ber að þakka frábæru starfsfólki sem hefur sýnt mikinn metnað og þrautseigju í gegnum þetta ferli. Við höfum náð að umbreyta viðskiptalíkani bankaþjónustu. Eignastýring bankans hefur náð framúrskarandi árangri með góðri ávöxtun og vexti eigna í stýringu. Markaðsviðskipti MP banka hafa náð góðum árangri þrátt fyrir krefjandi aðstæður á fjármálamarkaði,“ er haft eftir Sigurði.

Söluhagnaður vegna eigna í Litháen hafði áhrif

Þá segir að starfsemi bankans í markaðsviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf hafi gengið vel á árinu. Eignastýring bankans og dótturfélaganna Júpíters og FÍ fasteignafélags GP óx og fjármálatímaritið World Finance valdi MP banka fremstan á sviði eignastýringar á Íslandi árið 2014.

Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um 7% á milli árshelminga. Þær námu 628 milljónum króna á síðari hluta ársins en voru 674 milljónir króna á fyrri hluta þess. Fyrir árið í heild námu hreinar vaxtatekjur 1.302 milljónum króna. Verulegur viðsnúningur varð í fjárfestingartekjum á milli árshelminga og námu þær 234 milljónum króna á síðari hluta ársins, m.a. vegna söluhagnaðar af eignum bankans í Litháen.

Bankinn kom að fjármögnun fjölmargra verkefna á árinu og námu útlán til viðskiptavina 22,3 milljörðum króna í árslok. Útlánasafnið er sagt traust og nam upphæð lána sem voru í 90 daga vanskilum, að teknu tilliti til sértækra niðurfærslna, 0,88% af útlánum. Krossvanskilahlutfall var 1,24% í lok árs.

MP banki er eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Hann var stofnaður árið 199 og hjá honum starfa um 70 starfsmenn.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK