Ná ekki arðsemiskröfu ríkisins

Stóru viðskiptabankarnir þrír.
Stóru viðskiptabankarnir þrír. Samsett mynd/Eggert

Arðsemishlutfall stóru viðskiptabankanna árið 2014 nam 14,6% og nær ekki þeirri kröfu sem Bankasýsla ríkisins - sem gætir hagsmuna almennings fyrir hönd ríkisins - gerir til langtímaarðsemi eignarhlutar síns sömu bönkum. Bankasýslan gerir kröfu um 14,7% langtímaarðsemi eigin fjár þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í.

Þetta kemur fram í pistli Arnar Arnarsonar, sérfræðings hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, um hagnað viðskiptabankana í fyrra. Hann segir ekkert óeðlilegt að samanlagður hagnaður bankanna veki upp spurningar, enda nemi hann 81 milljarði króna. Hins vegar sé hætt við að rangar ályktanir verði dregnar ef eingöngu sé einblínt á hagnaðartölurnar.

Eigið fé stóru viðskiptabankanna er tæplega 600 milljarðar króna sem telst gríðarlega hátt. Arðsemi bankanna reiknast af þessu mikla eigið fé en í fyrra nam arðsemishlutfallið 14,6%. Það er litlu hærra en á árinu á undan og sambærilegt við árið 2012.

Örn segir að meðal annars verði að hafa í huga hvaða arðsemiskröfu íslenska ríkið gerir til eignarhlutar síns í stóru viðskiptabönkunum þremur. Bankasýsla ríkisins geri kröfu um 14,7% langtímaarðsemi eigin fjár þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í og er þá miðað við 12% eiginfjárgrunn, án víkjandi lána. „Eiginfjárhlutfall bankanna í dag er að meðaltali um 28% og rétt er að taka fram að fáheyrt er á Vesturlöndum að eiginfjárstaða banka sé svo sterk. Arðsemishlutfallið árið 2014 nam 14,6% eins og fyrr segir eða tæplega þeirri kröfu sem Bankasýslan sem gætir hagsmuna almennings fyrir hönd ríkisins gerir til langtímaarðsemi.“

Þá hafi réttilega verið bent á að hagnaður bankanna hafi að stórum hluta komið til vegna óreglulegra þátta sem tengjast ekki grunnrekstri þeirra beint. „Í nýlegri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja kemur meðal annars fram að arðsemi af starfsemi bankanna án virðisbreytinga sé 8,1%. Það er í takt við arðsemi af rekstri 100 stærstu fyrirtækja landsins á liðnum árum.

Seðlabanki Íslands hefur lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þessari stöðu. Þannig segir í  fjármálastöðugleikaskýrslu bankans síðasta október að um 80% af hagnaði stóru bankanna megi rekja til óreglulegra liða  og arðsemi grunnrekstrar stóru bankanna sé aðeins um 0,9% af heildareignum.“

Örn segir að bankarnir hafi getað staðið undir arðsemiskröfu ríkisins meðal annars vegna sérstakra þátta. Þeirra áhrifa mun hins vegar ekki gæta til frambúðar. „Arðsemi af reglulegri starfsemi er í takt við það sem gerist hjá 100 stærstu fyrirtækjum landsins en þyrfti að aukast eins og Seðlabankinn bendir á. Um þá staðreynd er starfsfólk bankanna meðvitað enda er unnið markvisst að aukinni skilvirkni og hagræðingu því samkeppnin um viðskiptavini hörð.“

Pistill Arnar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK