Stærsta skuldabréfaútgáfa um árabil

Arion banki
Arion banki

Arion banki hefur gefið út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur um 45 milljörðum íslenskra króna. Umframeftirspurn var ríflega tvöföld því í heild bárust tilboð frá um 100 fjárfestum fyrir rúmlega 675 milljónir evra.

Skuldabréfin eru til þriggja ára og bera fasta 3,125% vexti, og voru seld á kjörum sem jafngilda 3,10% álagi yfir millibankavexti. Um er að ræða fyrstu útgáfu íslensks banka í evrum sem seld er til breiðs hóps fjárfesta, allt frá endurreisn fjármálakerfisins.  

Á síðasta ári samdi Arion banki við Citi, Deutsche Bank og Nomura um skipulagningu funda með evrópskum fjárfestum. Markmiðið var að gefa út skuldabréf í evrum þegar markaðsaðstæður væru réttar. Undanfarið hafa lánsfjármarkaðir þróast með jákvæðum hætti og í kjölfar sterks uppgjörs bankans sköpuðust aðstæður til skuldabréfaútgáfu af þessari stærðargráðu að því er fram kemur í tilkynningu Arion banka.

Greiða niður önnur lán

Til stendur meðal annars að nýta hluta lánsins til að greiða niður önnur og óhagstæðari lán og lækka þannig fjármögnunarkostnað bankans. Einnig munu fyrirtæki í viðskiptum við bankann, sem þörf hafa fyrir erlenda fjármögnun, njóta góðs af auknu aðgengi að erlendu lánsfé.

Jákvætt lánshæfismat laðar að fjárfesta

Í tilkynningu segir að skuldabréfaútgáfan sé rökrétt framhald af markvissri vinnu undanfarinna ára. Snemma árs 2013 gaf bankinn út skuldabréf í norskum krónum og var þar með fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að sækja sér erlenda fjármögnun frá árinu 2007. Í upphafi árs 2014 fékk bankinn svo lánshæfismatið BB+ frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor‘s, fyrstur íslenskra banka. Síðar á árinu var horfum breytt úr stöðugum í jákvæðar. Lánshæfismat frá S&P er þýðingarmikið í þessu samhengi og stækkar til mikilla muna þann hóp fjárfesta sem áhuga hefur á skuldabréfum bankans. 

„Undanfarin ár hefur verið unnið ötullega að því að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans og bæta aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum. Þar er bankinn í fararbroddi íslenskra banka,“ er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka. „Útgáfan nú er langstærsta skuldabréfaútgáfa íslensks banka um árabil sem seld er til breiðs hóps alþjóðlegra fjárfesta. Um er að ræða afrakstur vinnu undanfarinna ára og um mikilvægan áfanga að ræða. Skuldabréfaútgáfan nú er ekki aðeins mikilvæg fyrir okkur og viðskiptavini okkar heldur einnig fyrir efnahagslífið hér á landi, þar sem aðgengi erlendu lánsfé á hagstæðum kjörum skiptir miklu fyrir áframhaldandi uppbyggingu,“ er haft eftir Höskuldi.

Um er að ræða fyrstu útgáfu íslensks banka í evrum …
Um er að ræða fyrstu útgáfu íslensks banka í evrum sem seld er til breiðs hóps fjárfesta, allt frá endurreisn fjármálakerfisins. AFP
Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka.
Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK