EDDA kaupir fjórðungshlut í Domino‘s

: f.v. Baldur Már Helgason sjóðsstjóri framtakssjóða Virðingar, Hannes Frímann …
: f.v. Baldur Már Helgason sjóðsstjóri framtakssjóða Virðingar, Hannes Frímann Hrólfsson forstjóri Virðingar og Birgir Örn Birgisson framkvæmdastjóri Domino‘s á Íslandi. mbl.is

Framtakssjóðurinn EDDA, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, hefur keypt fjórðungshlut í Pizza-Pizza ehf., sérleyfishafa Domino‘s Pizza International á Íslandi.

Domino‘s á Íslandi á meirihluta í sérleyfishafa Domino‘s í Noregi en þar hafa á undanförnum mánuðum verið opnaðir þrír staðir í samstarfi við norska meðeigendur, segir í fréttatilkynningu. Aðkoma EDDU verður m.a. nýtt til að fjármagna frekari vöxt í Noregi auk þess að undirbúa opnun Domino‘s staða í Svíþjóð en félagið er einnig með sérleyfi fyrir Domino‘s í Svíþjóð. 

Aðrir eigendur Pizza-Pizza ehf. eru Birgir Þ. Bieltvedt stjórnarformaður félagsins og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir, sem einnig situr í stjórn Pizza-Pizza ehf., Högni Sigurðsson, Birgir Ö. Birgisson framkvæmdastjóri og nokkrir aðrir lykilstjórnendur Domino‘s á Íslandi. 

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og sérleyfisveitanda Domino´s.

Haft er eftir Birgi Þ. Bieltvedt, stjórnarformanni Pizza-Pizza, í fréttatilkynningu að eftir að nýir eigendur komu að Domino‘s á Íslandi árið 2011 hafi orðið mikill viðsnúningur í rekstri félagsins. „Ætlunin er að nýta góða reynslu af rekstri Domino‘s á Íslandi við uppbyggingu Domino‘s í Noregi og það er mikill kostur að fá um leið fjárhagslega sterkan meðeiganda að félaginu til að styðja stjórnendur í þeirri vegferð.“

Um 600 starfsmenn

Pizza-Pizza er rekstraraðili Domino‘s á Íslandi auk þess að eiga meirihluta í rekstraraðila Domino‘s í Noregi. Pizza-Pizza opnaði fyrsta Domino‘s pizzastaðinn á Íslandi árið 1993 og rekur í dag 19 verslanir á Íslandi. Um 600 starfsmenn starfa hjá Domino‘s hér á landi, ríflega helmingur þeirra í hlutastarfi.

Edda slhf. er 5 milljarða króna framtakssjóður í rekstri verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. Hluthafar eru rúmlega 30, lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar. Fjárfestingarstefna Eddu er að fjárfesta í óskráðum félögum með trausta rekstrarsögu. Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 en fyrir á sjóðurinn 40% hlut í öryggisfyrirtækinu Securitas.

Virðing er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða. Virðing hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME).

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK