Hættir að botna í vinsældunum

Skyrið rýkur út á Norðurlöndunum.
Skyrið rýkur út á Norðurlöndunum.

Velta Mjólkursamsölunnar og samstarfsaðila á skyrmarkaði erlendis svarar til um 40 prósent af heildarveltu fyrirtækisins á Íslandi. „Finnland er í slíkum vexti að við erum alveg hættir að skilja það,“ segir Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS. Í heildina voru um tíu þúsund tonn af skyri seld á Norðurlöndunum, utan Íslands, á síðasta ári en til þess að setja það í samhengi jafngildir það í þyngd um 66 steypireyðum eða nærri 60 milljón skyrdósum.

Starfsemi MS erlendis er þríþætt; Í fyrsta lagi flytur fyrirtækið eins mikið út af skyri og hægt er miðað við þann innflutningskvóta sem MS er með í Evrópu. Í öðru lagi er skyr framleitt í Danmörku og Noregi af samstarfsaðilum sem hafa til þess framleiðslusérleyfi. Mjólkursamsalan fær þá prósentu af sölunni fyrir tækniþekkingu og ráðgjöf auk þess sem sameiginlega er unnið að þróun og markaðssetningu. Í þriðja lagi lætur MS samstarfsaðila sinn í Danmörku framleiða skyr sem það selur áfram til Finnlands til að anna þeim gríðarlega vexti sem þar er og ekki er tollfrjáls kvóti fyrir.

Veltan af skyrinu hjá samstarfsaðilum MS slagar upp í níu milljarða króna að sögn Jóns Axels. „Ávinningurinn af þessari starfsemi okkar er mun meiri en er af innlendu starfseminni,“ segir Jón.

Anna ekki eftirspurninni

Af 10 þúsund tonnunum fóru þrjú þúsund til Finnlands í fyrra og þá var 200% vöxtur í sölunni. Þar af voru um 2.600 framleidd í Thise-mjólkurbúinu í Danmörku en restin á Íslandi. Skyrið í Finnlandi hefur frá árinu 2010 verið selt í samstarfi við finnska aðila sem rákust á skyrið á ferðalagi um Ísland. 

Jón Axel segir þá nú panta allt að 1,2 milljónir skyrdósa í viku en heildarafkastagetan er 600 þúsund dósir og er MS því einungis að anna um helmingi af því sem pantað er frá Finnlandi þessa dagana. „Þessi viðskipti eru mjög arðbær fyrir okkur og urðu meðal annars til þess að afkoma MS var betri í fyrra en árið áður,“ segir Jón Axel.

MS er eini aðilinn sem selur skyr á finnska markaðnum, en skyrið á í harðri samkeppni við aðrar próteinvörur frá Arla, Valio og Danone. Þrátt fyrir harða samkeppni við þessi stóru fyrirtæki í Finnlandi er það íslenska skyrið sem hefur forystu á próteinmarkaðnum. „Við teljum að svo sé vegna þess að skyrið er besta varan,“ segir Jón Axel.  MS er með einkaleyfi á heitinu „Skyr“ í Finnlandi, sem þeir fengu vegna svokallaðrar markaðsfestu. MS er einnig með einkarétt á skyri í Noregi en ekki hefur verið fallist á slíkan rétt í Danmörku og Svíþjóð.

Dýrara en samkeppnisvörur

MS er með 60% af heildarmarkaði skyrs á Norðurlöndum á sama tíma og Arla er talið vera með um 40%. Skyrið er almennt dýrara í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi heldur en það er á Íslandi. Verðið í Danmörku er þó svipað og á Íslandi. Skyrdósin í Finnlandi kostar um 200 krónur út úr búð og allt að 400 krónur út úr verslun í Noregi.

Skoða Bandaríkin

Auk Norðurlandanna er MS einnig að flytja skyr út til Bandaríkjanna, þar sem það er selt í verslunum Whole Foods. Jón Axel segir útflutninginn þangað þó blikna í samanburði við Skandinavíu og sé einungis um 90 tonn á ári og skipti afkomu MS ekki neinu máli. Hann bætir við að eina leiðin til þess að gera eitthvað af alvöru í Bandaríkjunum sé að framleiða á staðnum sökum mikils flutningskostnaðar.

Aðspurður segir hann það vera í kortunum og hefur Mjólkursamsalan átt í viðræðum við bandaríska fjárfesta um framleiðslu og markaðssetningu. „MS er ekki fyrirtæki sem fer í áhættustarfsemi erlendis og því þarf að gera þetta í samstarfi við þessa aðila. Það þarf til mikla markaðspeninga vegna harðar samkeppni þar í landi,“ segir hann.

Rekstur Mjólkursamsölunnar skilaði á síðasta ári 322 milljóna króna afgangi sem er um þriðjungi betri afkoma en árið áður. 

Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS.
Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS. Morgunblaðið/Golli
MS er með um 60% markaðshlutdeild á skyrmarkaðnum á Norðurlöndum.
MS er með um 60% markaðshlutdeild á skyrmarkaðnum á Norðurlöndum. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK