Þarf átök til að komast á núllið

Bjarni Benediktsson hélt erindi á Popup ráðstefnu um fjármálalæsi í …
Bjarni Benediktsson hélt erindi á Popup ráðstefnu um fjármálalæsi í dag. Mbl.is/Eggert

„Ég veit að það þarf mikið átak til þess að komast aftur upp á núllið og það er erfitt að átta sig á því að maður átti í raun aldrei þennan pening,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Popup ráðstefnu um fjármálalæsi sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Á fundinum benti Bjarni á að almenn neyslulán væru algeng hjá Íslendingum. Heildar yfirdráttarskuldir landsmanna nema í dag um 100 milljörðum króna og hafa aukist á liðnum árum en á árinu 2012 námu skuldirnar um 88 milljörðum króna. Bjarni sagðist líkt og margir aðrir hafa þurft að greiða upp yfirdráttarlán að loknu námi og sagði betra að sleppa þess konar lánum. „Það eru alltof margir að greiða óþarfa kostnað vegna þeirra,“ sagði hann.

Margt smátt gerir eitt stórt

Þá sagði hann húsnæðisvanda yngra fólksins vera sér hugleikinn. „Hvernig á ungt fólk að komast yfir sína fyrstu fasteign?“ spurði hann og benti á að sniðugt gæti verið fyrir foreldra að leggja mánaðarlega til hliðar um 3.000 krónur fyrir börnin sín til þess að nota til fasteignakaupa þegar að því kemur. Þá væri einnig sniðugt að leggja til hliðar afmælispeninga, fermingarpeninga og aðrar gjafir í sama tilgangi. „Margt smátt getur gert eitt stórt og það getur borgað sig að spara,“ sagði Bjarni.

Popup-ráðstefnan er hluti alþjóðlegar fjármálalæsisviku sem haldin er í yfir eitt hundrað löndum. Markmið vikunnar er að vekja ungt fólk til umhugsunar um  fjármál sín og gefa þeim tól og tæki til að móta eigin framtíð.

Þarft að eiga efni á láni

Á ráðstefnunni tók Svanborg Sigmarsdóttir upplýsingafulltrúi Embættis umboðsmanns skuldara, einnig til máls og bar erindið hennar heitið „Hefurðu efni á láni?“. Hún sagði að mikilvægt væri fyrir fólk að skoða tekjur sínar og meta hvort það væri aflögufært fyrir afborganir af láni. Hún benti á að neysluviðmiðið fyrir einstakling væri 150 þúsund krónur á mánuði utan húsnæðiskostnaðar. Ef fólk á pening umfram það getur það tekið lán. Annars ekki. Svo einfalt er það. „Annars erum við bara að tvöfalda vandann,“ sagði Svanborg.

„Þú getur í rauninni bara tekið lán þegar þú átt pening,“ sagði Svanborg. „Það þarf að huga að þessu því annað getur haft áhrif á sögu þína til framtíðar.“

Fjármálafræðsla í grunnskóla

Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnisstjóri hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, greindi frá því á fundinum að í vetur hefði verið ráðist á að búa til námsefni um fjármálalæsi sem höfðaði til ungs fólks. Nú er verið að þróa efnið og til stendur að fara með það í grunnskóla landsins. Hún sagði uppistöðu námsefnisins felast í stuttum myndböndum auk verkefna.

Aðspurður um fjármálakennslu í grunnskólum sagðist Bjarni Benediktsson, telja slíka kennslu eiga heima þar. „Við þurfum að byrja sem allra fyrst,“ sagði Bjarni og bætti við að óþarfi væri að fórna öðrum greinum fyrir efnið þar sem auðveldlega ætti að vera hægt að koma kennslunni fyrir í öðrum fögum.

Mikilvægt er að eiga efni á láni. Annars er voðinn …
Mikilvægt er að eiga efni á láni. Annars er voðinn vís. mbl.is/Arnaldur Halldórsson
Verið er að útbúa námsefni í fjármálakennslu fyrir grunnskólabörn.
Verið er að útbúa námsefni í fjármálakennslu fyrir grunnskólabörn. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK