„Hundraða milljóna tjón neytenda“

Úboðsgjaldið er lagt á með ólögmætum hætti.
Úboðsgjaldið er lagt á með ólögmætum hætti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í morgun að þeirri niðurstöðu að innheimta svokallaðs útboðsgjalds, sem er lagt á landbúnaðarvörur, væri ólögmæt og stangaðist á við stjórnarskrá. 

Niðurstaðan var sú sama í þremur málum sem öll vörðuðu innflutning landbúnaðarafurða en fyrirtækin Hagar, Sælkeradreifing og Innnes höfðu látið reyna á tollkvóta fyrir búvörur og gjaldtöku fyrir þá.

Dómurinn sagði gjaldið teljast skatt í skilningi stjórnarskrár sem aðeins mætti leggja á samkvæmt lögum. Í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er hins vegar ráðherra fengið ákvörðunarvald um val á milli tveggja aðferða við úthlutun tollkvóta ef eftirspurnin er meiri en framboðið; annaðhvort að láta hlutkesti ráða eða efna til útboðs. Sú síðarnefnda felur ein í sér gjaldið fyrir ríkissjóð.

Talið var að ráðherra hefði verið veitt of víðtækt ákvörðunarvald með þessu en skattlagningarvald á alltaf að liggja hjá löggjafanum.

Ekki var hins vegar fallist á endurgreiðslukröfu vegna gjaldsins þar sem gögn lágu ekki fyrir um hvort gjaldið hefði skilað sér til baka til greiðanda í gegnum verðlagningu vörunnar.

Magntollarnir ekki ólögmætir

Dómurinn fellst hins vegar ekki á það með stefnendum í málunum að álagning magntolls á vörur fluttar inn á svokölluðum WTO-tollkvótum væri ólögmæt. 

Stefnendur töldu gildandi viðmið við ákvörðun álagningar tollsins bryti í bága við þær kröfur sem gerðar eru til innheimtu skatta og tolla þar sem magntollurinn teldist  í raun skattur. Í dóminum kemur fram að um sé að ræða viðurkennda reiknieiningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar í viðskiptum sínum. Reikningarnir séu glöggir og birtir opinberlega af Seðlabanka Íslands auk þess sem tollalög séu skýr um efnið.

Hækka verð að ósekju

Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda kemur fram að félagið fagni niðurstöðunni og segja hana staðfesta málflutning FA um að núverandi fyrirkomulag hækki að ósekju verð á innfluttum búvörum og bitni á hagsmunum neytenda. 

„Í dómunum felst að með ólögmætri skattlagningu hafi stjórnvöld valdið neytendum hundraða milljóna króna tjóni. Alþingi getur ekki skellt skollaeyrum við þeirri niðurstöðu. Það gengur ekki að neytendur séu áfram látnir borga ólöglegan skatt,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. FA fagnar niðurstöðunni.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. FA fagnar niðurstöðunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK