QuizUp vinsælasti leikurinn í Kína

Spilurum gefst kostur á að kaupa tómata til að henda …
Spilurum gefst kostur á að kaupa tómata til að henda í skjáinn hjá öðrum spilurum. Slíkt ýtir undir tekjumöguleika Plain Vanilla. Mynd/Plain Vanilla

QuizUp er vinsælasti ókeypis leikurinn í kínversku appstore, en aðeins nokkrar klukkustundir eru liðnar frá því að leikurinn var gefinn út þar í landi. Það er íslenska tölvufyrirtækið Plain Vanilla sem framleiðir leikinn en hann er gefinn út í Kína í samvinnu við leikjarisann Tencent, sem jafnframt rekur vinsælasta samfélagsmiðilinn þar í landi, WeChat.

Kínverska útgáfan er nokkuð ólík þeirri sem notendur annarstaðar í heiminum þekkja og segir í tilkynningu að þessar góðu viðtökur Kínverja fái tekjumöguleikar Plain Vanilla byr undir báða vængi.

Kínverska útgáfa leiksins býður upp á leiðir fyrir fólk til að greiða fyrir aukahluti í leiknum. Áður en leikurinn var gefinn út þar í landi hafði hann verið sóttur af 35 milljón notendum víða um heim og undanfarið hafa bæst við á milli 30 og 40 þúsund nýir notendur á dag. Segir í tilkynningunni að ljóst sé að notendunum muni fjölga enn hraðar á næstu dögum en heildarmannfjöldi í Kína er 1.400 milljónir.

Heitir WeQuiz í Kína

Talsverðar breytingar þurfti að gera á leiknum áður en hann var gefinn út í Kína, til viðbótar við að þýða allt viðmót og spurningar yfir á kínversku. Tencent benti starfsfólki Plain Vanilla á að þar í landi væru leikjaspilarar vanir skærari litum og hljóðum og var því ákveðið að gjörbreyta útlitinu í kínversku útgáfunni.

Kínverskum spilurum stendur m.a. til boða að kaupa tómata inni í leiknum til að henda á skjá andstæðingsins sem þarf þá að reyna að þurrka hann út á meðan hann klárar spurningalotuna. Þá gengur leikurinn ekki undir nafninu QuizUp í Kína heldur WeQuiz.

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla segir þessa niðurstöðu gleðilega, enda Kínamarkaður einn sá þróaðasti í heiminum. „Viðtökurnar sem QuizUp eða WeQuiz virðist vera að fá í Kína eru afskaplega gleðilegar enda markaðurinn sá allra stærsti sem við höfum farið inn á. Undirbúningurinn að útgáfu leiksins hefur verið langur enda snerist þetta ekki aðeins um að breyta tungumálinu eins og við höfum gert þegar við sækjum á nýja markaði, heldur þurftum við nánast að hanna leikinn upp á nýtt. Það virðist hafa heppnast þokkalega miðað við þessar frábæru viðtökur. Kína er einn þróaðasti leikja- og appmarkaður í heimi og það er mjög flott að stökkva beint í toppsætið þar á fyrsta degi útgáfunnar,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn tilkynnir útgáfu kínverska hluta leiksins.
Þorsteinn tilkynnir útgáfu kínverska hluta leiksins. Mynd/Plain Vanilla
Útlit leiksins er nokkuð annað en spilarar í öðrum löndum …
Útlit leiksins er nokkuð annað en spilarar í öðrum löndum þekkja. Mynd/Plain Vanilla
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK