Þessi fengu styrk úr Hönnunarsjóði

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti styrkinn.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti styrkinn.

Fimmtán fengu styrk úr Hönnunarsjóði í síðustu viku. Hér að neðan má sjá hverjir fengu styrkina og í hvaða verkefni styrkirnir fara.

Hönnunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 45 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.

Hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis, sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Styrkþegarnir:

Verkefni: Doppelganger-Home land collection
Styrkhafi: Ragna Fróðadóttir og Guðrún Lárusdóttir
Upphæð: 3.500.000 kr.

Doppelganger er umhverfisvænt fatamerki sem sækir innblástur í íslenskan þjóðararf. Innsta lags fatalína úr umverfisvænni vottaðri ull. Hugarfóstur og hönnunarsamstarf tveggja hönnuða á tímalausri línu úr lífrænum efnum með siðferðið að leiðarljósi í öllu framleiðsluferlinu, en ein aðal forsenda verkefnisins er að hanna tímalausa vöru úr umhverfisvænu hráefni.

Verkefni: Markaðssetning í Japan
Styrkhafi: As We Grow ehf.
Upphæð: 2.000.000 kr.

Verkefnið miðar að því að Hönnunar- og frumkvöðlafyrirtækið As We Grow nái fótfestu á japönskum markaði með prjónaðan barnafatnað. Í verkefninu felst að taka þátt í alþjóðlegu barnafatasýningunni Playtime Tokyo 25. til 27. ágúst 2015 og til að taka þátt í "showroomi" þar, í þeim tilgangi að kynna og markaðssetja As We Grow barnafatalínuna í Japan.

Áhugi hefur verið á vörunum í Asíu, sérstaklega meðal japana og umfjöllun verið um vörumerkið í einu virtasta barnafatablaði Japans, MILK, þar sem það er nefnt eitt af 100 áhugaverðustu alþjóðlegu barnafatamerkjunum í dag. Japanir eru mjög hrifnir af stílhreinum eiginleikum As We Grow og hafa hælt lita- og hráefnisnotkun ásamt því að finnast mikið til þess koma að vörumerkið sé íslenskt. Því er best að hamra járnið meðan það er heitt.

Verkefni: Skordýr í matinn
Styrkhafi: Búi Bjarmar Aðalsteinsson
Upphæð: 2.000.000 kr.

Verkefnið er tilraun til þess að vekja áhuga fólks á nýtingu skordýra í matvæli sem nýtt og spennandi innihaldsefni. Þar sem skordýr eru bæði næringarrík og sjálfbær í framleiðslu. Hönnuðir ásamt matreiðslufólki skoða þá möguleika sem felast í vöruþróun og framleiðslu út frá vestrænni matarmenningu.

Verkefni: Markaðs- og sölusókn í Bretlandi
Styrkhafi: Aurum
Upphæð: 1.500.000 kr.

Aurum by Guðbjörg - þátttaka í alþjóðlegri skartgripa-sölusýningu í Bretlandi.

Kynning á íslenskum skartgripum og skartgripahönnun á erlendum markaði, mynda tengsl við kaupendur og auka útflutning á skartgripum. Síðastliðin ár hefur Guðbjörg þróað og hannað fjölbreytar tímalausar skartgripalínur og því hafa væntanlegir kaupendur úr óvenjulega miklu úrvali að velja. Mikilvægt er að vinna að áframhaldandi nýsköpun á sviði íslenskrar skartgripahönnunar, efla og gera íslenska skartgripi sýnilegri á erlendum mörkuðum og skapa aukna atvinnu í þessu fagi hér heima.

Verkefni: Framleiðsla og kynning á Mokka og Rokka
Styrkhafi: Erla Sólveig Óskarsdóttir
Upphæð: 1.500.000 kr.

Frumgerðir ruggu- og hægindastólanna Rokka og Mokka voru sýndar á HönnunarMars 2015. Til að koma til móts við áhuga sýningargesta á að kaupa stólana er stefnt að framleiðslu á húsgögnunum. Stólarnir henta vel til framleiðslu á Íslandi því að þeir krefjast ekki kaupa á flóknum mótum eða nýjum tækjum.

Hönnun stólanna gefur möguleika á mörgum mismunandi útfærslum og hugsanlegum viðbótum, svo sem sófa. Hugmyndin er að byrja á innanlandsmarkaði og láta smíða að lágmarki 20 stykki til að ná fram hagkvæmni í framleiðslu. Gera þarf ráð fyrir um það bil 4 stólum sem verða notaðir í frekari þróun á útfærslum úr nýjum efnum í bólstri og grind. Stólarnir geta hentað sem úti- og innistólar. Fyrir notkun utandyra þarf bæði bólstrið og stálgrindin að vera veðurþolin. Framleiðsla og sala verður í höndum hönnuðar til að halda útsöluverði í lágmarki og stólarnir verða seldir á netinu og í nýju sýningarrými í miðbæ Reykjavíkur.

Verkefni: Lava Glass Collection
Styrkhafi: Steinunn Sigurd ehf.,
Upphæð: 1.500.000 kr.

Umsókn Steinunn Sigurd ehf., til Hönnunarsjóðs er vegna frekari þróunar og framleiðslu á kvenmanns- og karlmannslínu undir fatamerkinu STEiNUNN fyrir veturinn 2015, en fyrirtækið heldur upp á 15 ára afmæli sitt á árinu. Öll línan 61 stykki hefur verið hönnuð og er komin í prótótýpugerð.

Verkefni: FALINN SKÓGUR Rekaviður í hönnun
Styrkhafi: Ingibjörg Dóra Hansen og Elísabet V.Ingvarsdóttir
Upphæð: 1.500.000 kr.

Hönnunarsýning í Djúpavík sumarið 2015. Sýnd verður nýleg hönnun úr rekaviði í samspili við valda rekaviðargripi heimamanna. Staðarval hefur margþætta merkingu s.s. að tengja fullbúna hönnun við uppruna efnis og sögu og að varpa ljósi á þennan falda ,,nytjaskóg“ sem landsvæðið hefur að geyma.

Sýnendur/samstarfsaðilar.
Aðalheiður Þórólfsdóttir, vöruhönnuður.
Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt.
Dóra Hansen, húsganga- og innanhússarkitekt.
Dögg Guðmundsdóttir, vöruhönnuður.
Gero Grundman og Julia Lohamann, hönnuðir.
Hrafnkell Birgisson, vöruhönnuður.
Helga Ragnhildur Mogensen, skartgripahönnuður.
Júlía Andersen innanhússarkitekt og Emilía Borgþórsdóttir, iðnhönnuður.
Lilja Sigrún Jónsdóttir, myndlistakona.
Ólöf Jakobína Ernudóttir hönnuður og Þorleifur Eggertsson arkitekt.
Ólöf Birna Björnsdóttir, handverkskona.
Patricia Burk handverkskona.
Railis Design, hönnuður.
Sigurjón Pálsson, húsgagnahönnuður.
Valgeir Benediktsson, handverksmaður.
Þórhildur Þorgeirsdóttir, gullsmiður.
Krossneslaug/ Bekkur - lokal útibekkur.

Arkitektúr, ljósmyndir:
ASK arkitektar, Árni Friðriksson arkitekt. Cornilius Vöge, arkitektar. ALARK, Kristján Ásgeirsson og Jakob Líndal, arkitektar. Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttir, arkitektar

Verkefni: Cumulab2. Talsmaður; Skart-verndargripir hannaðir í gegnum persónuleikapróf á netinu og 3D prentun.
Styrkhafi: Katrín Ólína Pétursdóttir
Upphæð: 1.500.000 kr.

Verkefnið er viðmót á internetinu sem sameinar hönnun, tækni og 3D prentun, heimspeki, mýtólógíu og erkitýpusálfræði í nýju gagnvirku viðmóti. Notendaviðmótið gerir fólki kleift að hanna sinn eigin sérstæða skart-verndargrip í gegnum persónuleikapróf. Lausnina er hægt að 3D prenta í ýmsum efnum.

Verkefni: Or Type
Styrkhafi: Guðmundur Ingi Úlfarsson
Upphæð: 1.000.000 kr.

Or Type er leturútgáfa sem selur letur hönnun af Guðmundur Inga Úlfarssyni og Mads Freund Brunse. Útgáfan var opnuð á HönnunarMars 2013 en á síðustu 2 árum hefur útgáfan vakið mikla athygli fyrir framsækna sýn á leturformum og útgáfu leturs. Meðal þeirra sem nýlega hafa keypt og notað letur frá Or Type má nefna New York Times Magazine, The Wire og Sundance kvikmyndahátíð.

Það er tímafrekt að teikna letur, og erfitt að gera það án stuðnings. Or Type fær því styrk til að klára 4 letur í viðbót til að gera sig sterkari og samkeppnishæfari á þeim erfiða markaði sem leturheimurinn er.

Verkefni: Hirðteiknari Íslands
Styrkhafi: Rán Flygenring
Upphæð: 1.000.000 kr.

Hirðteiknari Reykjavíkurborgar snýr aftur og beinir nú sjónum sínum að landinu öllu. Rán Flygenring, hinn sjálfskipaði hirðteiknari, ferðast hringinn í kringum landið og skráir í teikningu það sem getur skilgreint og varpað ljósi á Ísland nútímans, svo sem mannlíf, náttúru, veðrabrigði og ferðamenn.

Verkefni: Íbúðir (ný kynslóð íbúðarhúsa)
Styrkhafi: Magnús Albert Jensson
Upphæð: 1.000.000 kr.

Markmið verkefnisins er betri íbúðir. Aðferð verkefnisins er róttæk endurskoðun íbúðarinnar sem kjarna borgarsamfélagsins, verkefnið fylgir áhrifum endurskoðunarinnar útí byggðamynstrið, atvinnuhætti, matarmenningu, menntun og uppeldisfræði.

Verkefni: Bólstur
Styrkhafi: Leópold Kristjánsson
Upphæð: 1.000.000 kr.

Bólstur er samstarfsverkefni hönnuðarins Sigga Eggertssonar og Markrúnar hönnunarstofu. Þróuð verður vörulína sem kemur myndmáli Sigga á áþreifanlegt og þrívítt form. Innblástur er sóttur í bútasaum og þekkt minni úr íslenskri náttúru. Fyrsti hluti línunnar samanstendur af púðum og teppum.

Verkefni: Designs from Nowhere 2015-2016
Styrkhafi: Karna Sigurðardóttir
Upphæð: 1.000.000 kr.

Designs from Nowhere er hönnunar- og nýsköpunarverkefni sem miðar að því að nýta hönnun og framleiðslu sem uppsprettu skapandi hugsunar til eflingar samfélags. Verkefnið mótar aðstæður til framleiðslu, sölu og markaðssetningar hönnunarvöru með áherslu á nýtingu íslenskra hráefna og verkþekkingar.

Verkefni: Emergent Timepiece
Styrkhafi: Eyþór Yngvi Högnason
Upphæð: 500.000 kr.

Hönnun og þróun tímatóla (e. timepieces) þar sem unnið er með táknmyndir, tímann og hans rás gerð skil í formum & efnisvali fremur en með hefðbundinni reglustiku. Þróa þarf framleiðslutækni og smíða frumgerðir. Markmiðið er að kalla fram áhrif tímans með formum og skila gæða úrum sem vöru.

Verkefni: Högna Sigurðardóttir arkitekt; efni og andi í byggingarlist
Styrkhafi: Guja Dögg Hauksdóttir
Upphæð: 500.000 kr.

„Högna Sigurðardóttir arkitekt - efni og andi í byggingarlist“ verður fyrsta bókin sem gerð hefur verið um ævistarf þessa merka byggingarlistamanns. Í henni verða verkum Högnu gerð góð skil og þau greind í stærra samhengi ljóðræns módernisma með áherslu á staðartengingu, efniskennd og upplifun.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK