Arion banki „einnota í viðskiptum“

Róbert Guðfinnsson athafnamaður.
Róbert Guðfinnsson athafnamaður. Morgunblaðið/Ómar

„Í næstum því þrjú ár hefur maður þurft að upplifa vinnubrögð, sem maður hélt að tíðkuðust einungis í bananalýðveldum, þar sem menn beita valdníðslu og eru ráðnir til starfa í skjóli vogunarsjóða,“ segir Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði og maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2014, í samtali við mbl.is.

Vísar Róbert með ummælum sínum til efnis greinar sem hann ritaði og birt er á heimasíðu siglo.is. Ber greinin heitið „Í minningu sparisjóðs“ og er þar fjallað um AFL sparisjóð sem sameinast mun Arion banka á næstunni. Sparisjóðurinn hefur um nokkurra mánaða skeið ekki uppfyllt kröfu Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall og hefur Arion banki, sem langstærsti eigandi stofnfjárs, unnið að málefnum sjóðsins í samstarfi við stjórn hans, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið.

Í málaferlum við eiganda sinn

„Undanfarna mánuði hefur það legið í loftinu að Arion banki ætli sér að hrifsa til sín AFL Sparisjóð, bótalaust. Þessi litla lánastofnun sem varð til við sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og elstu peningastofnunar landsins, Sparisjóðs Siglufjarðar, mun nú renna inn í sjóði erlendra vogunarsjóða undir nafni Arion banka,“ segir í grein Róberts.

Er þar einnig getið þess að síðasta rúma árið hafa stjórnir sjóðsins verið þrjár. Tvær þeirra voru skipaðar aðilum „sem ætla mætti að hefðu verið óháðar Arion banka.“ Bendir Róbert því næst á að hinn 24. apríl síðastliðinn hafi Arion banki skipað sitt eigið fólk í stjórn AFLs og tók fjármálastjóri bankans við stöðu stjórnarformanns AFLs.

„Þessi ráðstöfun var mjög sérkennileg þar sem AFL Sparisjóður er í málaferlum við aðaleiganda sinn, Arion banka, út af erlendum lánum sem talin eru ólögleg samkvæmt lögfræðiáliti. Ef að þessi málaferli vinnast má ætla að það myndist verulegt óráðstafað eigið fé í AFLi Sparisjóði sem borga ætti út í samfélagssjóði í Skagafirði og á Siglufirði. Með þessari aðgerð er Arion banki að koma sér undan þessu máli, því ekki mun bankinn halda uppi málaferlum gegn sjálfum sér,“ segir í grein Róberts.

Breytti hrunið engu?

Róbert segir loforð um heilbrigðara bankakerfi með heiðarlegum vinnubrögðum, í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008, ekki hafa ræst. „Upplifun mín á vinnubrögðum Arion banka undanfarin þrjú ár gagnvart þessum litla sparisjóði hafa sannfært mig um það að þetta heilbrigða bankaumhverfi, sem við héldum að yrði byggt upp, er ekki til staðar,“ segir Róbert.

Í greininni segir Róbert að í stjórn Arion banka megi finna „útbrunna einstaklinga með takmarkaða getu til umbreytinga.“ Segir hann þá sitja þar eingöngu til þess að maka krókinn og þjóna vogunarsjóðunum.

Kvislingur og síbrotamaður

Orðrétt ritar Róbert: „Í bankastjórastóli Arion banka situr síbrotamaður sem á feril í fyrirtækjum sem ítrekað hafa verið í rannsókn vegna brota á samkeppnislögum.
Yfir fyrirtækjasviði Arion banka er ætlaður “Quislingur” sem talið er að hafi keypt sér friðhelgi hjá Sérstökum saksóknara gegn því að vitna gegn fyrrum samstarfsmönnum sínum.“

Spurður hvort ekki sé ómaklega vegið að heiðri þessara manna svarar Róbert: „Hvað er síbrotamaður? - Skoðaðu bara þau samkeppnisbrot sem hann hefur verið ákærður fyrir í fyrri störfum. Ef þú brýtur endurtekið samkeppnislög, ertu þá ekki síbrotamaður? Ef að maður sem kaupir sér friðhelgi og starf, gegn því að vitna gegn sínum fyrri samstarfsmönnum, hvað kallarðu hann?“

„Ég hef það stundum á tilfinningunni að banki eins og Arion sé bara einnota í viðskiptum,“ segir Róbert.

Þegar haft var samband við upplýsingafulltrúa Arion banka vegna ummæla og rita Róberts fengust þær upplýsingar að menn þar á bæ væru að kynna sér efni greinarinnar.

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK