Veikindi tvöföld hjá hinu opinbera

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum vinnumarkaði. Þetta er ein af niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem kynntar voru í síðasta mánuði.

Niðurstöðurnar byggja á skráningu veikindadaga yfir þriggja ára tímabil á 25 vinnustöðum með um 1.400 starfsmenn. Mismunur af þessari stærðargráðu veldur um 11 milljarða króna árlegum kostnaðarauka fyrir hið opinbera og því er brýnt að kanna nánar ástæður hans. Þetta segir í frétt á vef Viðskiptaráðs Íslands.

Mánuður á ári í veikindafjarveru

Fjöldi fjarverudaga á hvern starfsmann í úrtakinu var að meðaltali 20 dagar hjá hinu opinbera samanborið við 10 daga í einkageiranum árið 2014. Starfsmenn hins opinbera eru samkvæmt þessu frá vinnu í um einn mánuð á ári. Þá voru starfsmenn á opinberum vinnustöðum veikir rúmlega 5 sinnum yfir árið samanborið við rúmlega 3 sinnum á einkareknu vinnustöðunum og langtímafjarvera ríflega þrefalt algengari hjá hinu opinbera.

Þessi mismunur í fjarvistum vegna veikinda veldur umtalsverðum kostnaðarauka fyrir hið opinbera. Heildarlaunaútgjöld ríkis og sveitarfélaga námu 276 milljörðum króna árið 2014. Út frá því má áætla að kostnaður vegna umframveikinda opinberra starfsmanna nemi um 11 milljarða króna á ári. Þessi kostnaður veldur hærri sköttum eða minni gæðum opinberrar þjónustu en ella að mati Viðskiptaráðs.

Ástæða til að samræma veikindarétt

Viðskiptaráð birti í síðustu viku skoðun sem fjallar um réttindi opinberra starfsmanna. Þar kemur meðal annars fram að veikindaréttur er mun ríflegri hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði Munurinn er allt að tífaldur í þeim tilfellum sem starfsmaður hefur verið í sex mánuði í starfi.

Ætla má að þetta mikla svigrúm sé veigamikill áhrifaþáttur þegar horft er til fjarveru opinberra starfsmanna vegna veikinda. Það  undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að meta einnig starfsréttindi – líkt og veikindaréttindi – þegar launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði eru borin saman.

Yfirstandandi kjaraviðræður við Bandalag háskólamanna (BHM) skapa tækifæri til að samræma starfsréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Með afnámi umframréttinda opinberra starfsmanna væri unnt auka svigrúm til hækkunar grunnlauna opinberra starfsmann líkt og forsvarsmenn bandalagsins hafa barist fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK