Rennur inn í Landsbankann

AFP

Sparisjóður Norðurlands ses. gerði í dag samkomulag við Landsbankann hf. um að hafinn verði undirbúningur að samruna þessara tveggja fjármálafyrirtækja undir merkjum Landsbankans.

Fram hefur komið að eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Norðurlands var 8,2% í árslok 2014 sem er undir þeirri eiginfjárkröfu sem Fjármálaeftirlitið gerir til sparisjóðsins.

Rekstur sjóðsins hefur verið viðunandi en niðurfærslur eigna í kjölfar endurmats þeirra hafa valdið neikvæðri rekstrarafkomu. Í ljósi þessa hefur stjórn sparisjóðsins að undanförnu leitað leiða til að tryggja hag viðskiptavina sparisjóðsins, kröfuhafa hans og stofnfjárhafa.

Endurgjald nemur 594 milljónum

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að stofnfjáreigendur í sparisjóðnum fái endurgjald fyrir stofnfjárhluti sína með þegar útgefnum hlutum í Landsbankanum. Heildarendurgjald Landsbankans til stofnfjárhafa yrði að verðmæti 594 milljónir króna, þó að teknu tilliti til niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Við samrunann rynnu allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins inn í Landsbankann og hann tæki við rekstri allra útibúa sjóðsins. Samruni er m.a. háður lögbundnum fyrirvörum um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

Eyða óvissu

Stjórn Sparisjóðs Norðurlands telur að með þessu samkomulagi sé þeirri óvissu eytt sem sjóðurinn hefur staðið frammi fyrir og hagsmunir viðskiptavina, kröfuhafa og stofnfjárhafa tryggðir til framtíðar.  Auk þess telur stjórn að með  þessu verði tryggð öflug fjármálaþjónusta á svæði sparisjóðsins til hagsbóta fyrir fyrirtæki og íbúa.

Sparisjóður Norðurlands er í eigu 361 aðila, en helstu eigendur stofnfjár eru Ríkissjóður Íslands: 79,2%, Tryggingasjóður sparisjóða: 14,9%, Eignasafn Seðlabanka Íslands: 1,7% og Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV: 1,7%.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK