Dýrari reiðhjól orðin að raunhæfara samgöngutæki

Áhugi á hjólreiðum fer vaxandi og eftirspurnin eftir bæði dýrari …
Áhugi á hjólreiðum fer vaxandi og eftirspurnin eftir bæði dýrari hjólum og hjólabúnaði hefur aukist. mbl.is/Ómar

Þrátt fyrir að fjöldi hjólreiðamanna á höfuðborgarsvæðinu hafi næstum þrefaldast frá árinu 2009 hefur innflutt magn á reiðhjólum lítið breyst á milli ára. Hins vegar hefur verðmæti innfluttra reiðhjóla tvöfaldast frá árinu 2009 og um 60% á föstu verðlagi. Þetta má lesa úr gögnum frá Reykjavíkurborg og Hagstofu Íslands.

Af þessu má draga þá ályktun að meira sé flutt inn af dýrari hjólum og notkun þeirra hafi aukist. „Fólk vill, með meiri notkun, komast í betri og dýrari hjól,“ segir Róbert Grétar Pétursson hjá reiðhjólaversluninni TRI.

Hjólin orðin betri og meira notuð

Á árinu 2009 voru flutt til landsins tæplega 15.000 reiðhjól og í fyrra voru þau 15.744. Þótt magn innfluttra hjóla hafi ekki aukist til muna hefur hins vegar eftirspurn vaxið eftir bæði dýrari hjólum og hjólabúnaði. „Reiðhjólin eru orðin að raunhæfara samgöngutæki en þau voru,“ segir Jón Pétur Jónsson, eigandi reiðhjólaverslunarinnar Arnarins. Að hans sögn hefur stærsta breytingin í rekstrinum verið þjónustuliðurinn en starfsmönnum á verkstæði hefur á síðustu fimm árum fjölgað úr tveimur í sex. „Miklu fleiri koma með hjólin sín í viðgerð en áður sem sýnir að reiðhjól eru meira notuð. Þegar fólk byrjar að nota hjólin sín eins og bíla þurfa þau meira viðhald, rétt eins og bílarnir.“ Jón Pétur segir að salan á hjólum hafi þó farið hægt af stað í ár vegna veðurs og einnig þeirrar óvissu sem fylgdi kjaradeilum á vinnumarkaðinum.

Auðveldara að hjóla

Frá árinu 2009 hefur orðið 180% fjölgun hjólreiðamanna samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg. Ásbjörn Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir að tvær skýringar búi þar helst að baki. Í fyrsta lagi tóku gildi vegalög hinn 1. janúar 2008 sem gerði Vegagerðinni kleift að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum landsins. „Með þeim fjölgaði hjólreiðastígum og þar með hjólreiðamönnum. Í kjölfar fleiri og betri stíga urðu hjólreiðar að raunhæfari samgöngukosti.“ Átakið „Hjólað í vinnuna“ hefur einnig haft mikið að segja og tekur Róbert Grétar hjá TRI í sama streng. „Að taka þátt í slíku átaki með vinnufélögum er oft stökkpallur fyrir fólk sem er að byrja.“

Þrátt fyrir mikla fjölgun hjólreiðamanna undanfarin ár hafa talsvert færri verið á ferðinni í ár en í fyrra. Björg Helgadóttir hjá samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar segir að veðurfarslegar skýringar séu þar að baki en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu var meðalhiti í júní- og maímánuði langt undir meðaltali fyrri ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK