Metmánuður í gjaldeyriskaupum

Seðlabankinn keypti 198 milljónir evra í júní.
Seðlabankinn keypti 198 milljónir evra í júní. AFP

Júní var metmánuður í kaupum Seðlabankans á gjaldeyri þar sem 198 milljónir evra voru keyptar en það samsvarar ríflega 29 milljörðum króna.

Til samanburðar námu gjaldeyriskaupin á fyrstu fimm mánuðum ársins að jafnaði 70 milljónum evra í einum mánuði en fyrra met var frá því í ágúst á síðasta ári þegar Seðlabankinn keypti 115 milljónir evra í ágúst í fyrra. 

Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka þar sem bent er á að gjaldeyriskaupin endurspegli að stóum hluta mikið innflæði gjaldeyris vegna þjónustuviðskipta. Talið er næsta víst að krónan hefði styrkst hressilega í síðasta mánuði ef ekki hefði verið fyrir inngrip bankans.

Útlit er fyrir að hreinn gjaldeyrisforði bankans verði allt að þrefalt stærri um næstu áramót en hann var í ársbyrjun, þrátt fyrir að bankinn selji væntanlega talsverðan gjaldeyri í stóra aflandskrónuútboðinu í haust. 

Dugir fyrir stóra útboðið í haust?

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt 551 milljónir evra á millibankamarkaði, og greitt fyrir tæplega 82 milljarða króna. Það er ríflega tvöfalt hærri fjárhæð en á fyrri hluta ársins 2014.

Fyrir liggur að Seðlabankinn mun bjóða gjaldeyri úr gjaldeyrisforðanum til sölu í stóra útboðinu sem haldið verður fyrir aflandskrónueigendur í haust og kynnt var sem hluti áætlunar stjórnvalda um losun hafta í síðasta mánuði.

Telur Greining Íslandsbanka að Seðlabankinn gæti selt í kring um 500 milljónir evra í útboðinu.

Þar með virðist það líklegt að gjaldeyriskaup Seðlabankans á sumarmánuðum dugi ein og sér til þess að útvega gjaldeyri fyrir aflandskrónaútboðið

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK