Hvernig hlaða stjórnendur batteríin?

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri mbl.is/Árni Sæberg

Hlaup, golf, kraftlyftingar, badminton, veiði og lestur er meðal þess sem nokkrir stjórnendur í atvinnulífinu nefna sem bestu leiðina til að hlaða batteríin og hugsa um annað en vinnuna. Það sem flestir virðast hafa sameiginlegt er að stunda líkamsrækt fyrir vinnu, en þá voru hlaup einnig vinsælasta leiðin til að halda sér í formi og slaka á í dagsins önn.

Mbl.is hafði samband við nokkra stjórnendur í atvinnulífinu, bæði hjá opinberum stofnunum og almenna markaðinum. Spurt var hvort viðkomandi stundaði íþróttir eða önnur áhugamál til að hlaða batteríin, hvenær væri líklegasti tíminn fyrir slíkt og hvað olli því að sú íþrótt eða áhugamál varð fyrir valinu.

Í hlaupunum felst frjálsræði

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknastjóri, segist skokka reglulega og að það fari yfirleitt fram snemma á morgnana áður en aðrir í fjölskyldunni vakni. Þá segir hún að fjölskyldan eigi gott afdrep í sumarbústað sem þau reyni að fara í eins oft og kostur er. „Að komast þangað og út í náttúra hefur mér reynst afskaplega góð leið til að hlaða batteríin. Það er helst að ég myndi vilja eiga fleiri stundir til lesturs bæði til gagns og gamans en fyrir þeim hefur of lítið farið undanfarin ár,“ segir Bryndís. Hún segir hlaupið hafa orðið fyrir valinu vegna þess frjálsræðis sem felist í hlaupum og nálægðar við góðar hlaupaleiðir í útivistarsvæðum borgarinnar.

Notar golfið til að keppa við sjálfa sig

Golf og hin hefðbundna rækt er það sem Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri Deloitte, segist stunda hvað mest. Þannig reyni hún að fara eina utanferð í golf yfir veturinn til viðbótar við að stunda greinina yfir sumarið. Margrét hefur alla tíð stundað keppnisíþróttir og var áður í allskonar boltaíþróttum. Nú er það hins vegar golfið sem er aðalmálið. „Golfið er ansi rólegt miðað við það en þar er maður aðallega að keppa við sjálfan sig, ég þarf alltaf að hafa að einhverju að keppa.“ segir hún.

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri Deloitte.
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri Deloitte.

Eins og Bryndís tekur Margrét daginn snemma og segist helst byrja daginn eldsnemma á morgnana með að fara í ræktina. Þá segist Margrét ná mestri ró með að lesa og segist hafa vanið sig á að gera það fyrir svefninn. Spennusögur geti þó haft þveröfug áhrif og orsakað lítinn svefn að hennar sögn.

Badminton og fótbolti á veturna, hlaup á sumrin

Sigurhjörtur Sigfússon tók í fyrra við forstjórastóli verkfræðifyrirtækisins Mannvits. Hann hefur undanfarin 20 ár á veturna spilað badminton með gömlum skólafélögum til viðbótar við vikulegan fótbolta. Á sumrin taka hins vegar hlaupin við. Til að kúpla sig út úr hringiðu vinnunnar segist Sigurhjörtur einnig vera duglegur að fara á völlinn með krökkunum, en þau fylgjast bæði með kvenna- og karlaliði Stjörnunnar.

Sigurhjörtur Sigfússon, forstjóri Mannvits.
Sigurhjörtur Sigfússon, forstjóri Mannvits. Mynd/Mannvit

Sigurhjörtur segir mikilvægt að brjóta aðeins upp af vananum og á sumrin segist hann helst vilja ferðast um landið. „Á sumrin hefur fjölskyldan ferðast töluvert innanlands og skoðað það sem landið hefur upp á að bjóða og það skiptir miklu máli að mínu mati að breyta um umhverfi annað slagið. Að sama skapi er alltaf gott að fara í sumarbústaðinn til tengdaforeldranna og vera í sveitarsælunni þar.“ segir hann.

Mætir á morgnana á kraftlyftingaæfingu

Aðferð Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra Einkaleyfastofu, til að hlaða batteríin sker sig nokkuð frá öðrum stjórnendum sem rætt var við, en hún stundar reglulega kraftlyftingar og fyrir þremur árum var hún dugleg að taka þátt í kraftlyftingarmótum. Hún hefur stundað greinina í sex ár og segir hún að þar sameinist margir góðir þættir eins og regluleg hreyfing, aukinn styrkur, einbeiting sem leiði til hugleiðslu og svo ákveðin slökun í dagsins önn. Eins og hjá fleirum í þessari grein er Borghildur morgunmanneskja þegar kemur að æfingum. Segist hún mæta þrisvar í viku fyrir vinnu á æfingar og mæta svo af fullum krafti í vinnuna.

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu, mætir á morgnana á kraftlyftingaæfingu.
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu, mætir á morgnana á kraftlyftingaæfingu. Ómar Óskarsson

Borghildur hefur einnig tekið upp aðra nýja iðju undanfarin ár, en hún byrjaði að læra á píanó og að mála með olíulitum fyrir nokkrum árum. Hún segist þó ekki hafa náð að stunda það nægjanlega mikið, en að það sé frábær leið til að slaka á. Borghildur á stóra fjölskyldu, eiginmann og fjögur börn og segir hún að til viðbótar við fyrrnefnd áhugamál reyni þau að ferðast, bæði innanlands sem utan.

Engin betri leið en þurrfluguveiði til að hlaða batteríin

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania skellir sér líka út að hlaupa, en hann segist taka 30 mínútna hring á morgnana. Þá stundi hann „bumbubolta“ með félögunum, en um er að ræða bæði körfu- og fótbolta. Hans helsta ástríða er þó veiðin. „Ég veit enga leið betri til að hlaða „batteríin“ en að vera einhverstaðar út í íslenskir náttúru í góðu veðri við veiðar,“ segir Gestur, en hann stundar fyrst og fremst silungsveiði á þurrflugu. Hann segir hlaupin aftur á móti vera nauðsynleg til að halda sér í jöfnu og góðu formi og það skili sér svo í því að vera tilbúinn að takast á við verkefni dagsins.

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, tekur 30 mínútna hlaup á …
Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, tekur 30 mínútna hlaup á morgnana og rennir fyrir silung á sumrin. Ómar Óskarsson

Hljóðbækur og góður kaffibolli

Dagný H. Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segist stunda ræktina nokkrum sinnum í viku. Hún sker sig frá öðrum á listanum þegar kemur að tímasetningu, en Dagný segist helst fara í ræktina á kvöldin þegar börnin eru sofnuð og um helgar. Fyrir hvern vinnudag er hún þó með sína aðferð til að koma sér í gang, en Dagný segist fá sér góðan kaffibolla og svo hlusta á hljóðbækur á leiðinni í vinnuna. Segist hún hafa byrjað á því þegar hún bjó í London, en að þessi venja hafi haldist eftir að hún kom til Íslands. „Þó svo að ferðalagið til og frá vinnu sé styttra hjá mér í dag þá nýti ég þann tíma til að hlusta á bækur, bæði skáldsögur og viðskiptatengdar bækur.  Það er alveg yndislegt að setjast upp í bílinn á morgnana með góðan kaffibolla og góða bók,“ segir Dagný.

Dagný H. Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, hlustar á hljóðbækur á …
Dagný H. Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, hlustar á hljóðbækur á leiðinni í vinnuna.

Ræðir málefni líðandi stundar á hlaupum

Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri lögfræðistofunnar Logos, segist rífa sig upp á morgnana til að hlaupa eða fara í golf, en hún segir hlaupið vera góðan vettvang til að ræða málefni líðandi stundar við vinkonu sína sem hleypur með henni. „Allra best finnst mér að fara út að hlaupa eða spila golf eldsnemma að morgni. Fyrir mig sem er morgunmanneskja gildir að morgunstund gefur gull í mund,“ segir Helga um það að byrja daginn snemma.

Önnur áhugamál Helgu eru meðal annars veiði, fjallganga og lestur. Hún segir þó tímann vera takmarkandi þátt í því hvað hún nái að gera og þannig sé hún til dæmis þekktust í leshópnum sínum fyrir að mæta illa og þegar hún mæti sé hún ekki vel vel lesin.

Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri Logos.
Helga Melkorka Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri Logos.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK