Nýir kaffipúðar frá Te & Kaffi

Nú er hægt að fá kaffipúða frá Te & Kaffi.
Nú er hægt að fá kaffipúða frá Te & Kaffi.

Te & Kaffi hefur hafið framleiðslu á kaffipúðum en slíkir púðar hafa notið sífellt vaxandi vinsælda á undanförnum tíu árum. Um fyrstu íslensku kaffipúðana er að ræða.

Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir vinsældirnar m.a. tilkomnar vegna þess að vélbúnaðurinn sem þarf til þess að búa til einn kaffibolla heima fyrir eða í vinnunni sé ekki dýr. „Lausnin er líka einföld, fljótleg og þægileg og við höfum fengið margar fyrirspurnir um hvort til standi að framleiða slíka púða. Það er því ánægjulegt að geta orðið við þeim óskum,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að Te & Kaffi hafi á undanförnum árum fylgst vel með þróuninni í þessum málum en fyrir um ári síðan var tekin ákvörðun um að fjárfesta í tækjabúnaði sem gerir fyrirtækinu kleift að framleiða íslenska kaffipúða.

Meira kaffi

Hann segir mikinn mun á íslensku púðunum og þeim erlendu sem hafa fengist hér á landi. „Munurinn á púðunum okkar og þeim innfluttu er að með því að framleiða þá hér heima fer kaffið nýristað og ferskt í matvöruverslanir. Ekki skemmir heldur fyrir að meira magn af kaffi er í púðunum frá Te & Kaffi sem gerir það að verkum að kaffið verður kröftugra og bragðmeira“, segir hann.

Til að byrja með er hægt að fá þrjár tegundir af íslenskum kaffipúðum, Colombia Santos, French Roast og Java Mokka.

Púðarnir fara í dreifingu á næstu vikum en eru þegar komnir í nokkrar verslanir s.s. Fjarðakaup, Víði, 10-11 og Krónuna.

Ellefu kaffihús

Kaffihús Te & Kaffi eru í dag ellefu talsins og um 150 manns starfa hjá fyrirtækinu. Kaffihúsunum hefur bæði fjölgað ört að undanförnum árum auk þess sem þau hafa ýmist verið stækkuð eða innréttuð að nýju. Nýjasta breytingin er í Kringlunni þar sem kaffihúsið á þriðju hæð var stækkað til muna þannig að sæti eru fyrir fimmtíu manns.

Auk þess að reka kaffihúsin hefur fyrirtækið einnig lagt aukna áherslu á skrifstofumarkaðinn og matvörumarkaðinn þar sem Te & kaffi er í dag með tæplega 20 prósent markaðshlutdeild. Að sögn Guðmundar Halldórssonar, framkvæmdastjóra Te & Kaffi, hófst sóknin á matvörumarkaðinn árið 2004 og var fyrirtækið þá með um eitt prósent markaðshlutdeild. Þá var kaffið einungis selt í Fjarðarkaupum þar sem verslunin er nánast við hlið verksmiðjunnar í Stapahrauni í Hafnafirði. 

Hraður vöxtur frá september

Guðmundur segir að fyrirtækið hafi ekki fyrr verið tækjum búið til þess að fara inn á matvörumarkaðinn en fyrstu tvö árin fóru í hálfgerða prufukeyrslu. „Haustið 2006 erum við bæði komin með framleiðslugetu og vörulínu sem okkur fannst henta fyrir matvörumarkaðinn. Helstu vaxtarárin voru frá 2007 til 2009 og síðan þegar við tókum aðra vöruþróunarlotu í lok árs 2014 þar sem við komum fram með endurbætta vörulínu,“ segir hann og vísar til þess að hlutdeildin hafi vaxið úr 15 prósentum í 20 prósent frá september sl.

Aðspurður hvort reiknað sé með aukinni hlutdeild með tilkomu kaffipúðanna segist Guðmundur ekki þora að vera of yfirlýsingaglaður. „Við vonum bara að við séum komin með vöru sem neytendur vilja og við höfum fulla trú á því, en þetta verður örugglega hóflegur vöxtur til þess að byrja með.“

Í dag eru kaffiblöndurnar frá Te & Kaffi sex talsins og ekki er stefnt á fjölgun á næstunni heldur segir Guðmundur að áhersla verði lögð á að þróa þær enn frekar.

Eigendur og stofnendur fyrirtækisins eru Sigmundur Dýrfjörð og Berglind Guðbrandsdóttir. Te og Kaffi verður þrjátíu ára á árinu.

Te & Kaffi hefur nú opnað endurbætt og notalegt kaffihús á 3. hæð við Stjörnutorg. Kaffihúsið hefur verið stækkað til...

Posted by Kringlan on Friday, July 17, 2015
Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & Kaffi.
Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & Kaffi. Kristinn Ingvarsson
Kaffihús Te & Kaffi eru ellefu talsins.
Kaffihús Te & Kaffi eru ellefu talsins. Eggert Jóhannesson
Sigmundur Dýrfjörð, annar eigandi Te & Kaffi .
Sigmundur Dýrfjörð, annar eigandi Te & Kaffi . Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK