Auka hlut sinn í Íslandshótelum

Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg
Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg mbl.is/Golli

Framtakssjóðirnir Edda og Kjölfesta hafa ásamt meðfjárfestum aukið hlut sinn í Íslandshótelum hf. og eiga nú saman um 24% hlut í félaginu. Fjárfestingin er í formi þátttöku í hlutafjáraukningu Íslandshótela sem ætlað er að styðja við enn frekari vaxtaráform félagsins.

Íslandshótel hf. er stærsta hótelkeðja landsins en félagið á og rekur 15 hótel um land allt. Má þar nefna Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík ásamt 12 Fosshótelum um land allt.

Í tilkynningu segir að rekstur Íslandshótela hafi gengið framar vonum á síðustu árum þar sem fyrirtækið hafi átt stóran þátt í fjölgun gistirýma á Íslandi, bæði á landsbyggðinni sem og í Reykjavík.

Í byrjun júní var opnað nýtt fjögurra stjörnu hótel við Höfðatorg í Reykjavík undir merkjum Fosshótela, en það er stærsta hótel landsins með 320 herbergi. Á síðasta ári opnaði félagið Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði í gamla franska spítalanum og byggt var við Fosshótel Vatnajökul. Einnig hófust framkvæmdir við stækkun Fosshótel Húsavík á síðasta ári auk þess sem fyrsta skóflustungan var tekin að Fosshótel Jökulsárlóni á Hnappavöllum við Öræfajökul en þar mun rísa nýtt 104 herbergja glæsihótel. Félagið er jafnframt að vinna að hönnun á nýju hóteli við Lækjargötu í Reykjavík.

Í sumar bjóða Íslandshótel upp á rúmlega 1.400 herbergi. Hjá félaginu starfa þegar mest lætur um 800 manns.

Aðrir eigendur Íslandshótela eru Ólafur D. Torfason, sem einnig situr í stjórn félagsins, og fjölskylda.

Styðja við uppbyggingu

Viðskipti þessi munu styðja enn frekar við þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er hjá Íslandshótelum þar sem áhersla er lögð á aukin gæði um allt land,“ er haft eftir Ólafi D. Torfassyni, stjórnarformanni Íslandshótela hf., í tilkynningu.

Við erum mjög ánægð með að geta stutt við vöxt Íslandshótela með viðbótar fjárfestingu. Mikill áhugi fjárfesta á að taka þátt í fjárfestingunni staðfestir tækifærin sem felast í sí-auknum fjölda ferðamanna til landsins,” er þá haft eftir Margit Robertet, framkvæmdastjóra Eddu slhf.

Edda slhf. er fimm milljarða króna framtakssjóður í rekstri verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum ásamt öðrum fagfjárfestum. 

Fjárfestingarfélagið Kjölfesta slhf. var stofnað 2012 og eru í eigu 14 fagfjárfesta, þar af 12 lífeyrissjóða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK