Hagnaður Marels jókst verulega

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður Marels nam 19,5 milljónum evra á öðrum fjórðungi ársins og jókst verulega á milli ára, en hann var 0,8 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Tekjur félagsins jukust jafnframt á tímabilinu og námu 218,3 milljónum evra, borið saman við 169,8 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

EBITDA félagsins, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nam 38,1 milljón evra á ársfjórðunginum sem er um 17,5% af tekjum, en EBITDA var 13,0 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Þá nam EBIT, rekstrarhagnaður, 28,5 milljónir evra á tímabilinu, sem er 13,1% af tekjum. Rekstrarhagnaðurinn var 3,6 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2014.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 23,7 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2015, borið saman við 20,4 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 156,0 milljónum evra, en 204,5 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Pantanabókin stóð í 165,9 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs 2015 samanborið við 178 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2015.

Í tilkynningu frá félaginu segir að gott jafnvægi sé á milli pantana á öðrum ársfjórðungi á milli uppbyggingaverkefna, endurnýjunarverkefna og viðhaldsverkefna og söluverkefni dreifist vel á heimsvísu. Pantanastaða í fisk- og kjúklingaiðnaði sé góð en markaðsaðstæður í áframvinnslu og kjöti hafi gefið lítillega eftir.

Búast má við að tekjur í þriðja ársfjórðungi verði lægri en í öðrum ársfjórðungi vegna árstíðabundinna áhrifa og tímasetningu á afhendingu búnaðar til viðskiptavina. Heilt yfir eru markaðsaðstæður góðar.

Fjárhagsstaðan firna sterk

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að fyrri hluti ársins hafi einkennst af miklum tekjuvexti og afkomubata. „Tekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nema 428 milljónum evra og er rekstrarhagnaður félagsins 12,5% af tekjum, að teknu tilliti til einskiptisliða. Við erum stolt af árangrinum sem byggir á sterku vöruframboði, nánum tengslum við viðskiptavini og góðum markaðsaðstæðum.

Með nýsköpun og markvissri markaðssókn ætlar Marel sér að viðhalda stöðu félagsins sem leiðandi aðila á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fjárhagsstaða félagsins er firna sterk sem gefur okkur ýmis tækifæri til vaxtar,“ segir Árni Oddur.

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK