Hlutabréf í grískum bönkum hríðfalla

AFP

Hlutabréf í grískum bönkum héldu áfram að falla í verði í dag, annan daginn í röð, á meðan bréf í félögum í öðrum atvinnugreinum, svo sem ferðaþjónustu, tóku kipp.

Hlutabréfavísitalan í Aþenu lækkaði um 1,2% í dag, borið saman við 16% í gær, þegar opnað var fyrir viðskipti með hlutabréf í kauphöllinni í Aþenu á nýjan leik. Þá hafði verið lokað fyrir viðskipti í fimm vikur.

Hlutabréf í grískum bönkum hríðféllu í verði, um næstum 30%, sem er það mesta sem bréfin mega mögulega lækka á einum degi.

Fjármálageirinn í landinu stendur afar höllum fæti eftir atburði síðustu mánuði og er ljóst að endurfjármagna þarf bankakerfið. Um fimmt­ung­ur fé­laga í aðalhluta­bréfa­vísi­töl­u landsins eru bank­ar. 

Hins vegar tóku hlutabréf félaga í öðrum atvinnugreinum aðeins við sér í dag, þá sér í lagi í ferðaþjónustunni.

Hlutabréfavísitalan í Aþenu hefur lækkað um meira en 50% frá því að hún náði hámarki í fyrra.

Eftir að grísk stjórnvöld settu á gjaldeyrishöft í landinu, þegar skuldakreppan stóð sem hæst, var lokað fyrir öll viðskipti með hlutabréf. Grískum fjárfestum er enn óheimilt að nota peninga á bankareikningum sínum í hlutabréfaviðskipti, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK