Hlutabréf álframleiðenda hríðfalla

Álverð hefur farið hratt lækkandi á árinu. Eftirspurn er þó …
Álverð hefur farið hratt lækkandi á árinu. Eftirspurn er þó enn að aukast. mbl.is/Þorvaldur

Hlutabréfaverð alþjóðlegra álfyrirtækja með starfsemi á Íslandi hefur hríðlækkað á síðastliðnum tólf mánuðum. Gengi hlutabréfa í Century Aluminum, sem rekur meðal annars Norðurál á Grundartanga, hefur lækkað um 73%, gengi Alcoa, sem á meðal annars álver á Reyðarfirði, hefur farið niður um 42% og þá hefur gengi bréfa í Rio Tinto Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík, fallið um 34%.

Á sama tíma hefur álverð lækkað um 24%.

Vert er þó að taka fram að miklar sveiflur hafa verið á hlutabréfaverði fyrirtækjanna þriggja á undanförnum árum. Þannig var hlutabréfaverð í Century í 31 dal á hlut þegar það var sem hæst í nóvember í fyrra en lægst hefur það verið 5,6 dalir á hlut í júlímánuði árið 2012, þegar litið er til seinustu fimm ára. Nú stendur það í um 5,8 dölum á hlut.

Þá hélst hlutabréfaverð í Alcoa tiltölulega lágt, á bilinu sjö til tíu dalir á hlut, frá seinni hluta árs 2011 til loka árs 2013. Hæst náði það í tæplega átján dölum á hlut snemma árs 2011 og var það jafnframt á svipuðum slóðum í nóvember í fyrra. Nú er það um 9,4 dalir á hlut.

Mestu sveiflurnar hafa verið á hlutabréfaverði Rio Tinto Alcan. Þegar litið er til seinustu fimm ára sést að það náði hvað hæst í 73 dölum á hlut í júlí 2011 en lægst var það í 39 dölum á  hlut tveimur árum síðar. Fyrir tólf mánuðum var það í 57,6 dölum en hefur síðan þá hríðfallið um 34%, niður í 38,2 dali.

Holskefla af kínversku áli

Eins og kunnugt er hefur verð á áli lækkað nokkuð skarpt að undanförnu og hefur það nú ekki verið lægra síðan fjármálakrísan reið yfir. Miklar umframbirgðir og offramleiðsla voru taldar helstu skýringarnar á lækkandi álverði eftir að fjármálakreppan skall á en undanfarið hafa augu manna beinst í æ meira mæli að kínverskum álframleiðendum.

Kínverjar ráða nú yfir meira en helmingi allra álbirgða í heiminum, en þeir áttu aðeins um fimmtung fyrir rúmlega tíu árum síðan. Hægagangur í kínverska hagkerfinu hefur orðið til þess að Kínverjar eru nú farnir að flytja út framleiðslu sína í auknum mæli. Eiga greinendur von á holskeflu af kínversku áli á heimsmarkaðinn á næstunni.

Í nýlegri umfjöllun Financial Times segir að þessi mikla aukning í Kína megi rekja til ódýrrar orku og og hagkvæmra álbræðslna, sem greinarhöfundur segir að séu orðnar þær hagkvæmustu í heimi.

„Kínverjar eiga núna bestu og kostnaðarminnstu álverksmiðjur í heimi. Þeir munu reyna að flytja umframbirgðir sínar út,“ segir Jeremy Wrathall, greinandi hjá Investec. „Um allan heim þykir mönnum það ósanngjarnt. Þetta hefur verið gríðarleg breyting - nú þegar það hægir á í Kína verður hún enn meiri.“ Hann bætir við að ríki á borð við Indland, Suður-Kórea og Japan hafi á undanförnum tveimur mánuðum undirbúið sig að koma upp háum tollamúrum til þess að verja sig fyrir þessari miklu sókn Kínverja í ál og stál.

Álverð ekki lægra í sex ár

Í umfjöllun Financial Times kemur jafnframt fram að álverð, eins og það var í byrjun mánaðarins, hafi ekki verið lægra í sex ár. Á sama tíma tilkynntu kínversk yfirvöld að framleiðsla á áli hefði aukist um 11% á fyrri helmingi ársins og útflutningur álafurða um 35%.

Nicholas Snowdon, greinandi hjá bankanum Standard Chartered, segir það blasa við að álverð nálgist nú sársaukamörk fyrir framleiðendur. Alcoa, sem er stærsti álframleiðandi í Bandaríkjunum, gerir ráð fyrir því að umframbirgðir verði 760 þúsund tonn á heimsvísu á árinu, vegna aukins útflutnings Kínverja. Það dugir til þess að smíða sextán þúsund Boeing 747 flugvélar.

Spá 6% vexti á álmarkaði

Það er óhætt að segja að lækkandi álverð hafi sett strik í reikninginn hjá álfyrirtækjum.

Afkoma Alcoa á öðrum fjórðungi ársins, sem var birt í byrjun mánaðarins, var undir væntingum greinenda. Klaus Kleinfeld, forstjóri álframleiðandans, sló þó jákvæðan tón og sagðist eiga von á því að árið 2015 yrði ágætis ár, eins og í fyrra, þrátt fyrir óveðursskýin sem hrannast hafa upp. Hagnaður félagsins jókst á milli ára og nam 140 milljónum dala, en aukin eftirspurn frá flugvéla- og bílaframleiðendum vann á móti áhrifum af álverðslækkunum. Þá jókst sala félagsins um 1% á milli ára og var 5,9 milljarðar dala.

Félagið sá heldur ekki ástæðu til að breyta spá sinni fyrir álmarkaðinn fyrir árið í heild, en það gerir enn ráð fyrir 6,5% vexti þar í ár. Kleinfeld var nokkuð harðorður í garð kínverskra álframleiðenda á uppgjörsfundinum og sagði að álverðslækkunina mætti rekja til „misnotkunar“ þeirra á skattkerfinu. Hún færi þvert gegn stefnu kínverskra stjórnvalda.

Rio Tinto Alcan hagnaðist um 806 milljónir dala á fyrstu sex mánuðum ársins. Samdrátturinn á milli ára nam 82%, hvorki meira né minna. Þrátt fyrir það var hagnaðurinn meiri en margir greinendur höfðu búist við og sagði Sam Walsh, forstjóri félagsins, að afkoman hefði verið „sterk“ þegar litið væri til erfiðra markaðsaðstæðna. Hann sagðist eiga von á því að vöxtur á nýmörkuðum myndi að lokum þrýsta verði á hrávörum upp. Greinendur hjá Investec voru nokkuð ánægðir með uppgjörið en nefndu þó að næstu sex mánuðir yrðu félaginu líklegast enn meira krefjandi en áður, í ljósi mikilla lækkana á hrávöruverði.

Mikill samdráttur hjá Century

Verst hefur gengið hjá Century Aluminum en félagið tapaði 33,9 milljónum dala á öðrum fjórðungi ársins. Hagnaður félagsins nam hins vegar 18,7 milljónum dala á sama tímabili í fyrra. Athygli vekur að sala félagsins jókst á milli ára en hríðlækkandi álverð setti stórt strik í reikninginn. Eins og áður kom fram hefur gengi hlutabréfa í félaginu lækkað um 73% á undanförnum tólf mánuðum.

Michael Bless, forstjóri Century, tilkynnti á uppgjörsfundi félagsins að gripið yrði til róttækra aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu sem er komin upp. Hagrætt verði í rekstri og dregið úr kostnaði sem nemur tuttugu milljónum dala á ári. Félagið þurfti meðal annars nýlega að loka álverksmiðju sinni í Ravenswood í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. „Við erum að grípa til erfiðra en nauðsynlegra aðgerða til þess að varðveita samkeppnishæfni okkar,“ sagði hann.

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Sigurður Bogi
Norðurál á Grundartanga.
Norðurál á Grundartanga. mbl.is/Brynjar Gauti
Fjarðaál á Reyðarfirði.
Fjarðaál á Reyðarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is/Þorvaldur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK