17 milljón króna hagnaður RÚV

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

17 milljón króna hagnaður varð af rekstri Ríkisútvarpsins fyrstu sex mánuði ársins 2015, en tap þess nam 36 milljónum króna á fyrstu tíu mánuðum yfirstandandi rekstrarárs, þ.e. frá 1. september 2014 til 30. júní 2015, á meðan tap síðasta rekstrarárs, 2013-2014, var 271 milljón króna eftir skatta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Þar er bent á að á hluthafafundi 24. febrúar 2015 hafi verið samþykkt breyting á samþykktum félagsins þess efnis að reikningsár þess verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst. Af þeim sökum sé árshlutauppgjörið sem tilkynningin fjallar um frábrugðið uppgjöri fyrri ára.

„Helstu ástæður þess að reksturinn batnar eru að tekjur hækka á milli ára og rekstrarkostnaður fer lækkandi vegna ýmissa hagræðingaraðgerða sem gripið hefur verið til í starfsemi félagsins. Þetta gerist þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hafi hækkað verulega en sá kostnaður byggist á samningi um stafræna dreifingu sem gerður var vorið 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli ára en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við sameiginlegan rekstur og yfirstjórn lækkar milli tímabila. Stöðugildum fækkar, þau voru að meðaltali 257 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að það sé mat stjórnar Ríkisútvarpsins að rekstur félagsins sé að „nálgast ákveðið jafnvægi“ miðað við þá þjónustu sem nú sé veitt. Breytingaferli síðasta árs hafi skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins, en ávinningurinn eigi enn eftir að skila sér að fullu. Lögð hafi verið áhersla á að hagræða í umgjörð en verja dagskrá eins og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK