Skugga Hótel innblásið af myndum Rax

Páll L. Sigurjónsson og Ragnar Axelsson.
Páll L. Sigurjónsson og Ragnar Axelsson.

Ljósmyndir Rax gegna veigamiklu hlutverki í hönnun nýjasta hótels Keahótela, Skugga Hótel, sem opnaði nýlega við Hverfisgötu í Reykjavík. Hótelið er innblásið af myndum hans frá Norðurslóðum.

Listamaðurinn Guido van Helten málaði listaverk eftir ljósmyndum Rax, Ragnars Axelssonar og er þetta í fyrsta sinn sem unnið er á þennan hátt með myndir hans. Guido er veggjalistamaður sem skapar út frá ljósmyndum en hann málaði meðal annars andslitsmyndir á veggi í Vesturbæ Reykjavíkur.

Verkin eru unnin upp úr ljósmyndabók Rax er nefnist Fjallaland og prýða nú veggi í móttöku og veitingarými Skugga Hótels.

„Ég er mjög stoltur af þessum myndum og hvernig þetta kemur út,” er haft eftir Raxa í tilkynningu. „Þetta heldur goðsögn myndanna á lofti og þetta kemur bara frábærlega út.”

Oft málað án leyfis

Ekki hefur áður verið unnið með myndir frá Rax á þennan hátt. „Það hefur verið málað eftir myndunum mínum erlendis, oft meira að segja án míns leyfis. En það er gott að fá að koma að þessu í þetta skiptið,“ segir hann.

Rax segist hafa treyst Guido fullkomlega fyrir verkefninu en þeir hittust og ræddu saman áður en sá ástralski hófst handa. „Hann er auðvitað snillingur eins og hann hefur sýnt áður. Hann fékk frjálsan tauminn og útkoman er virkilega vel heppnuð.

Rax er margverðlaunaður ljósmyndari og jafnframt talinn með þeim fremstu, ef ekki fremsti ljósmyndari Íslands. Hann hefur í rúman aldarfjórðung slegist í för með bændum á hálendi Íslands og myndað þá í göngum og leitum við allar mögulegu aðstæður. Útkoman birtist í bókinni Fjallaland sem kom út árið 2013.

Innanhússarkitektar hótelsins, Berglind Berndsen og Helga Sigurbjarnadóttir, nýttu myndir hans sem innblástur fyrir útlitshönnun hótelsins og eru meðal annars tilvitnanir úr bókinni Fjallalandi á höfuðvegg hvers herbergis. „Það reyndist auðvelt að sækja innblástur í myndir Rax. Þær eru fjölbreyttar og spennandi og hugmyndin nýtur sín vel,“ er haft eftir Berglindi í tilkynningu.

Listamaðurinn Guido van Helten.
Listamaðurinn Guido van Helten.

Stolt af niðurstöðunni

Hótelið er þriggja stjörnu og hannað með það að leiðarljósi að vera hluti af borgarmyndinni og mannlífi miðborgarinnar. Bar er á móttökuhæð hótelsins og er hann öllum opinn.

Það var Tryggvi Tryggvason, arkitekt hjá Arkitektastofunni Opus á Akureyri sem teiknaði hótelið en Verktakafyrirtækið SA Verk sá um byggingu þess.

Rekstraraðili Skugga Hótels er Keahótel en um fjórða Keahótelið í Reykjavík er að ræða. Það fimmta, Storm Hótel, mun opna í október næstkomandi.

„Það er gott rými fyrir þessa tegund hótels á þessum stað í Reykjavík og það fellur vel inn í þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er við Hverfisgötuna. Við vildum að hótelið yrði hluti af borgarmyndinni og iðandi mannlífi miðborgarinnar og erum stolt af niðurstöðunni,” er haft eftir Páli L. Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Keahótela, í tilkynningu.

Móttakan á nýju Skugga Hóteli.
Móttakan á nýju Skugga Hóteli.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK