Hægt að færa stofnanir úr miðbænum

Austurstræti 22 eða brunareiturinn svokallaði. Reginn ætlar að skapa sér …
Austurstræti 22 eða brunareiturinn svokallaði. Reginn ætlar að skapa sér sterka stöðu í miðbænum. Eignamiðlun

Er partíið rétt að byrja eða er að hefjast hófleg samkunda sem endist vel og lengi? Þessari spurningu var varpað fram á fundi um stöðuna og horfur á atvinnuhúsnæðismarkaðnum. „Ég held að það séu að minnsta kosti fjögur ár þar til við þurfum að fara passa okkur,“ sagði Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics.

Fundurinn var haldinn á vegum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga á Foss hótel í hádeginu í dag. 

Magnús sagði góðar blikur á lofti og nefndi að velta fasteignafélaga hafi vaxið mikið frá frostavetrinum mikla eftir hrun auk þess sem nýting skrifstofu-, verslunar- og lagerhúsnæðis hefur stórlega batnað. Hann benti á að skammtímaleigusamningar hefðu gjarnan verið gerðir eftir hrun og eru þeir nú eru að renna út. Því eru miklir hækkunarmöguleikar fyrir hendi sem geta hækkað ávöxtun eigna.

Tækifæri á opinbera markaðnum

Helstu tækifærin telur hann vera á opinbera markaðnum þar sem hægt væri að færa margar stofnanir sem þurfa ekki að vera miðsvæðis. Magnús nefndi í dæmaskyni húsnæði Ríkisskattstjóra og benti á að það þyrfti ekki alltaf að byggja nýtt heldur væri einnig hægt að endurskipuleggja.

Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Reginn Fasteignafélags, minntist einnig á tækifæri á opinbera markaðnum og nefndi að opinberir aðilar væru yfirleitt að horfa á tuttugu ára leigusamninga. „Að gera svona samninga, þar sem húsnæðið er á mjög góðum stað, eins og hjá Samgöngustofu, finnst mér hálfgalið, þegar engin leið er til að komast út úr þessu,“ sagði hann og vísaði til þess að sniðugt væri að skoða hvernig farið er að hlutunum í öðrum löndum og sagði þetta vera umræður sem hið opinbera þyrfti að koma að.

Helgi sagði mikilvægt að vera með dreift eignasafn til þess að draga úr áhættu þar sem markaðssveiflur koma með ólíkum hætti niður á mismunandi tegundum húsnæðis.

Sterk staða í miðbænum

Hann sagði félagið hins vegar sækjast eftir því að verða sterkt í miðbænum. Til marks um þetta keypti Reginn t.a.m. nýverið Aust­ur­stræti 22, eða brunareitinn svokallaða, þá á félagið einnig húsnæði Apóteksins að Austurstræti 16 auk alls verslunar- og þjónusturýmis á tveimur reitum við Austurhöfn, eða Hörpureitnum svokallaða. „Það er gríðarleg aukning í atvinnustarsemi í miðbænum, og þá sérstaklega í tengslum við verslun og þjónustu,“ sagði Helgi. „Við teljum að miðbærinn muni styrkjast. Við viljum vera sterk þar, hafa áhrif á þróunina, vinna með borgaryfirvöldum og sækjast eftir áberandi og sterkum eignum.“

Helgi nefndi að Reginn hefði fyrir ári síðan ákveðið að hugsa um félagið á nýjan hátt. „Við erum bara að selja vöru og hvernig getum við útbúið hana fyrir viðskiptavini,“ sagði hann. Svokallað útleiguteymi var þá skapað innan fyrirtækisins þar sem þekking var sótt til reynslubolta í bílabransanum, fatabransanum og víðar. Helgi sagði þetta hafa skilað miklum árangri og nefndi í dæmaskyni að á síðustu árum hefði félagið verið að leigja út um 20 þúsund fermetra á ári. Það sem af er ári er þetta þegar komið upp í um 25 þúsund fermetra og félagið hefur gert 48 leigusamninga um atvinnuhúsnæði.

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics.
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics. mbl.is/Ómar
Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins.
Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK