Ríkissjóður sparaði sér 35 milljarða

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Árni Sæberg

Ef ríkissjóður hefði fjármagnað sig með verðtryggðum ríkisbréfum í stað óverðtryggðra hefði kostnaður ríkissjóðs orðið fjórum prósentum meiri á árunum 2003 til 2014 en það jafngildir um 35 milljörðum króna miðað við núgildandi verðlag.

Þetta kemur fram í sérriti sem fylgdi nýju tölublaði Markaðsupplýsinga en ritið byggir á óbirtri rannsókn Kjartans Hanssonar, starfsmanns Lánamála ríkisins, um hagkvæmni óverðtryggðrar ríkisbréfaútgáfu á árunum 2003 til 2014.

Bent er á að verðtrygging hafi verið mikið í umræðu undanfarin ár og að skiptar skoðanir séu á því hvort hagkvæmara sé fyrir ríkissjóð að gefa út verðtryggt eða óverðtryggt.

Þá segir að á fullkomnum markaði, þar sem allar upplýsingar liggja fyrir, og markaðir eru skilvirkir ætti fjármögnunarkostnaður að vera sá sami hvort heldur sem gefin eru út verðtryggð eða óverðtryggð ríkisskuldabréf.

Markaðir eru ekki fullkomnir

„Markaðir eru hins vegar ekki fullkomnir og fjárfestar búa ekki yfir nægilega góðum upplýsingum til að geta spáð fullkomlega fyrir verðbólgu framtíðarinnar. Það verður því alltaf einhver munur á endanlegum fjármagnskostnaði sambærilegra verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa.“

Sá munur skipti útgáfustefnuna máli ef markmiðið sé að lágmarka vaxtakostnað ríkissjóðs.

Við rannsóknina var skoðað greiðsluflæði allra óverðtryggðra skuldabréfa sem gefin voru út á almennum markaði á fyrrnefndu tímabili. Smíðað var sambærilegt greiðsluflæði fyrir ímyndaðar verðtryggðar útgáfur miðað við verðtryggð kjör á markaði þá daga sem bréf voru seld úr óverðtryggðum flokkum. Mismunur á greiðsluflæði þessara bréfa var síðan borinn saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK