Hversu mikið hefur Kobe Bryant þénað?

Kobe Bryant ætlar að leggja körfuboltaskóna á hilluna eftir tímabilið.
Kobe Bryant ætlar að leggja körfuboltaskóna á hilluna eftir tímabilið. AFP

Körfuboltastjarnan Kobe Bry­ant ætlar að leggja skóna á hill­una eft­ir tíma­bilið. Á flesta mælikvarða telst það snemmt að setjast í helgan stein 37 ára gamall en miðað við tekjurnar sem Bryant hefur halað inn yfir ferilinn ætti hann ekki að þurfa að hafa áhyggjur. Auk þess má gera ráð fyrir að hann muni finna sér eitthvað að gera í framtíðinni.

Bryant hefur varið öllum ferlinum hjá LA Lakers og verið þar allt frá árinu 1996. Samkvæmt CNN Money hefur hann fengið um 323 milljóna dollara laun frá félaginu á þeim tíma en það jafngildir tæpum 43 milljörðum króna.

Þar að auki hefur hann þénað um 280 milljónir dollara í gegnum samninga við ýmis fyrirtæki. Það jafngildir um 37 milljörðum króna. Heildarsumman nemur því um áttatíu milljörðum króna.

Bryant var kærður fyrir nauðgun árið 2003 en kæran var síðar látin niður falla. Hann tapaði nokkrum samningum í kjölfarið við fyrirtæki á borð við McDonald's en hélt þó samningnum við Nike og er enn á samningi hjá þeim.

Áhættufjárfestir og vinsæll í Kína

Bryant nýtur gífurlegra vinsælda í Kína þar sem treyjur merktar honum eru mest seldu körfuboltatreyjur landsins. Nýverið samdi fyrirtækið hans, Kobe Inc., við netrisann Alibaba um sölu á vörulínu með ýmsum varningi merktum honum og má því ætla að hann muni drýgja tekjurnar töluvert með því.

Þar að auki hefur hann verið að fjárfesta í nokkrum fyrirtækjum en á síðasta ári sagðist hann í viðtali við Forbes hafa fjárfest á milli 4 til 6 milljóna dollara í nýjum íþróttadrykk er nefnist BodyArmor, og er þar með þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins.

Bryant þarf víst ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur miðað við …
Bryant þarf víst ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur miðað við núverandi stöðu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK