Landsbanki fær 4 milljarða lán

mbl.is/Eggert

Landsbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hafa undirritað lánasamning til fimm ára, að fjárhæð 30 milljónir evra (jafnvirði um 4,2 milljarða króna). Þetta er fyrsta óveðtryggða lánið sem NIB veitir íslenskum banka frá því að fjármagnshöft voru sett á árið 2008.

Fram kemur á vef Landsbankans, að samningnum um lánarammann sé kveðið á um að Landsbankinn endurláni upphæðina til verkefna sem efla samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og til að fjármagna umhverfisvæn verkefni á Íslandi.

Þá segir, að Landsbankinn hafi veitt lánsfjármagni sem falli undir ofangreinda skilgreiningu til verkefna og fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum og fjármögnun NIB gefi Landsbankanum færi á að efla enn frekar lánveitingar til slíkra verkefna.

„Að mati Norræna fjárfestingarbankans er ramminn mikilvægur liður í því að stuðla að fjárfestingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Við teljum að afnám gjaldeyrishafta muni ýta frekar undir efnahagslegan bata á Íslandi. Við álítum að í stjórn efnahagsmála í landinu hafi verið stigin nauðsynleg skref til að tryggja að bankakerfið standist álagið þegar höftunum verður aflétt,“ er haft eftir Henrik Normann, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans.

„Undirritunin í dag markar ánægjulegan áfanga í uppbyggingu trausts á erlendum fjármálamörkuðum. Lánveiting NIB ásamt nýlegum skuldabréfaútgáfum Landsbankans í evrum, sænskum krónum og norskum krónum eru skýr dæmi um aukið traust erlendra fjárfesta á Landsbankanum og íslensku efnahagslífi. Landsbankinn hefur undanfarin ár markvisst unnið að því að auka fjölbreytni og styrk fjármögnunar bankans jafnt í íslenskum krónum sem í erlendri mynt. Lánskjörin í samningnum við NIB eru bankanum hagfelld og styðja við markmið bankans um að lækka fjármögnunarkostnað og auka fjölbreytni lánveitenda í erlendri mynt. Aukinn áhugi erlendra fjárfesta og aðgangur að erlendu lánsfé á hagstæðum kjörum eru mjög mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf,“ er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans.

NIB er fjölþjóðleg lánastofnun í eigu átta aðildarríkja; Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn fjármagnar verkefni sem fela í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir lántakendur og aðildarríkin. NIB hefur hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn, AAA/Aaa, frá alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, Standard & Poor’s og Moody’s.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK