Bannar Sviss bönkum að búa til peninga?

Frá Bern, höfuðborg Sviss.
Frá Bern, höfuðborg Sviss. Wikipedia

Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss um það hvort viðskiptabönkum verður bannað að búa til rafræna peninga. Svissnesk stjórnvöld staðfestu í gær að þjóðaratkvæðið verði haldið í kjölfar þess að rúmlega 110 þúsund undirskriftum var safnað því til stuðnings. Fjallað var um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í gær. Dagsetning atkvæðagreiðslunnar hefur ekki verið ákveðin.

Samkvæmt þarlendum lögum ber að halda þjóðaratkvæði um mál ef safnað er 100 þúsund undirskriftum á innan við 18 mánuðum. Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar, samtökin Vollgeld, vilja að svissneski seðlabankinn hafi einn vald til þess að búa til peninga og bankar geti aðeins lánað út það fjármagn sem lagt hafi verið inn í þá eða þeir fengið frá öðrum bönkum. Ákvörðun um það með hvaða hætti nýir peningar séu búnir til lægi hjá stjórnvöldum.

Eins og staðan er í dag hefur seðlabanki Sviss aðeins einkarétt á að gefa út svissneska seðla og mynt. Bankar búa hins vegar til um 90% peninga í umferð með rafrænum hætti í formi útlána. Sama fyrirkomulag er við líði víðast hvar annars staðar í heiminum. Hugmyndin um að seðlabankar hefðu einkarétt á útgáfu allra peninga var fyrst kynnt til sögunnar á fjórða áratug síðustu aldar sem leið til þess að koma i veg fyrir eignabólur og óábyrga útlánastarfsemi. Hún hafi meðal annars notið stuðnings hins þekkta bandaríska hagfræðings Irvings Fischer.

Haft er eftir Vollgeld að seðlabanki Sviss hafi verið stofnaður árið 1891 með einkarétt á að gefa út svissneska peningaseðla og mynt. Með tilkomu rafrænna peninga hafi bankar á nýjan leik öðlast þann möguleika að búa til sína eigin peninga. Ákvörðunin frá 1891, sem tekin hafi verið af almennum kjósendum, hafi þannig verið tekin úr sambandi.

Fram kemur í fréttinni að þetta verði ekki í fyrsta sinn sem svissneskir kjósendur greiði atkvæði um mál sem snúa að peningastefnu Sviss. Þannig hafi 78% kjósenda hafnað því í þjóðaratkvæði síðasta ári að gullforði svissneska seðlabankans yrði aukinn úr 7% í 20%.

Daily Telegraph segir að hagfræðingar séu mun jákvæðari fyrir hugmynd Vollgeld, sem leiðar til þess að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og koma í veg fyrir of mikla skuldasöfnun, en stækkun gullforðans sem margir hafi álitið fyrsta skrefið að því að koma á gullfæti á nýjan leik.

Fréttinni lýkur á því að rifjað er upp að hliðstæðar hugmyndir hafi verið kynntar hér á landi og er þar vísað til hugmyndar Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem hann hefur kallað Betra peningakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK