Opnar Lemon í París

Jón Arn­ar Guðbrands­son, annar eigenda Lemon og Eva Gunnarsdóttir, sem …
Jón Arn­ar Guðbrands­son, annar eigenda Lemon og Eva Gunnarsdóttir, sem stendur að opnuninni í París. Mynd/Lemon

Fyrsti veitingastaður Lemon utan Íslands verður opnaður í París þann 1. mars næstkomandi. Eva Gunnarsdóttir er með sérleyfið fyrir staðnum en hún flutti til Parísar fyrir tíu árum síðan. Nú er hún að standsetja húsnæðið sem er við fjölfarna göngugötu í öðru hverfi borgarinnar.

Staðurinn er við Rue des Petits Carreaux, sem er rétt hjá göngugötunni þekktu Rue Montorgueil. Eva segist mjög ánægð með staðsetninguna enda vildi hún vera á fjölförnum stað. Húsnæðið er um 150 fermetrar og á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni verður eldhúsið en á efri hæðinni er salurinn sem er um 100 fermetrar.

„Varð ótrúlega frönsk“

Eva segir framkvæmdir ganga vel en rafvirkjar og pípulagningamenn eru nú á fullu að gera upp húsnæðið sem er orðið nokkuð gamalt. Hún segir undirbúninginn hafa staðið yfir í um eitt og hálft ár og bendir á að skriffinnskan sé mikil í Frakklandi. „Þetta hefur tekið langan tíma. Þeir gera þetta erfitt að ráði og það er ekki fyrir hvern sem er að stofna fyrirtæki,“ segir hún.

Eva flutti til Parísar fyrir tíu árum þegar hún fékk vinnu hjá útibúi Landsbankans í borginni. Eftir að hún hætti þar starfaði hún lítillega við kennslu. „Síðan varð ég bara ótrúlega frönsk,“ segir hún kímin og bætir við að nokkurra ára barneignarfrí hafi þá tekið við.

„Við maðurinn minn áttum eitt barn fyrir og þegar við eignuðumst annað barnið hætti ég að vinna. Þannig ég var í rauninni bara heima síðastliðin sex ár. Núna erum við búin að eignast þrjú börn og það er alveg nóg,“ segir hún og hlær. „Krakkar byrja þriggja ára í skóla og nú var yngsta stelpan að byrja í skóla í september og þá var ég loksins laus til þess að gera eitthvað nýtt,“ segir Eva.

Hún segist hafa haft mikinn áhuga á því að búa til djúsa og borða hollan mat á síðustu árum og var því hrifin af hugmyndinni á bak við Lemon.

Frakkarnir skrefi á eftir

Eva segir staði á borð við Lemon vera að skjóta upp kollinum í París. „Þetta er alltaf að koma meira og meira. Veitingastaðir eru farnir að bjóða upp á djús á morgnana en þetta er miklu meiri tíska á Íslandi,“ segir hún. „Frakkarnir eru alltaf einu skrefi á eftir vegna þess að þeir eru með svo rosalega sterkan kúltúr,“ segir Eva.

„Ég held hins vegar að við séum á hárréttum tíma með þetta þar sem landslagið er að breytast með yngri kynslóðinni.“

Í samtali við mbl í fyrra sagði Jón Arn­ar Guðbrands­son, annar eigenda Lemon, að þreif­ing­ar í Bretlandi stæðu einnig yfir.

Frétt mbl.is: Lemon til Frakklands og Parísar

Eva Gunnarsdóttir
Eva Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK