Svara Bankasýslunni á morgun

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, þegar mótmælendur mættu í bankann í …
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, þegar mótmælendur mættu í bankann í lok janúar. Eggert Jóhannesson

Svör Landsbankans til Bankasýslunnar verða afhent formlega á morgun og stendur lokavinna við svörin nú yfir að sögn upplýsingafulltrúa.

Borgun svaraði í gær bréfi Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans. Þar var ítrekuð afstaða fyrirtækisins um að Borgun hefði aldrei mátt ætla að bankinn væri grandlaus um valréttarsamninginn.

Þá hafi bankinn verið upplýstur um aðild Borgunar að Visa Europe á tveimur kynningarfundum.

Borgun hefur vísað í svokallað gagnaherbergi sem bankinn hafði aðgang að. Þar hafi legið ítarlegar upplýsingar um rekstur félagsins og þá m.a. um eignarhlut Borgunar í Visa Europe og val­rétt­ar­á­kvæðið milli Visa Inc og Visa Europe. 

Ekki hægt að prenta út

Í svari við fyrirspurn mbl um mögulega yfirsýn bankans vísar bankinn til svara Steinþórs, sem komu fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag.

„Þetta var rafrænt gagnaherbergi sem ekki var hægt að prenta úr og þar voru ýmsar upplýsingar. Ef þessar upplýsingar lágu fyrir að þeir ættu rétt á greiðslum, þá finnst okkur eðlilegt að þeir hefðu átt að gera grein fyrir því í sínum stjórnendakynningum og í reikningum félagsins,“ sagði Steinþór.

Nýtingarréttur til 99 ára

Í bréfi Borgunar kemur fram að fyrirtækið hafi ekki metið eign­ar­hlut sinn í Visa Europe sem veru­leg verðmæti, enda ekki haft ástæðu til ann­ars fyrr en nú. Þetta sé m.a. vegna þess að verðmætið hafi al­farið verið háð mögu­legri nýt­ingu þriðja aðila og sá nýt­ing­ar­rétt­ur var til 99 ára.

„Borg­un bjó aldrei yfir upp­lýs­ing­um um hvort, hvenær né á hvaða verði Visa Europe yrði mögu­lega selt, fyrr en sal­an var gerð op­in­ber þann 2. nóv­em­ber 2015. Vænt hlut­deild Borg­un­ar í sölu­and­virði á Visa Europe varð síðan ekki ljós fyrr en með bréfi Visa Europe þann 21. des­em­ber sama ár,“ segir Borgun.

31,2% hlutur Landsbankans í Borgun var hins vegar seldur í nóvember 2014 í lokuðu söluferli.

Borgun segist ekki hafa metið hlutinn sem veruleg verðmæti.
Borgun segist ekki hafa metið hlutinn sem veruleg verðmæti. mbl.is/Júlíus

Hvað var lagt til grundvallar spyr Bankasýslan

Frestur Landsbankans til að svara bréfi Bankasýslunnar rennur út 12. febrúar en líkt og áður segir stendur til að svara því á morgun.

Bankasýslan hefur farið fram á upp­lýs­ing­ar um það með hvaða hætti hafi verið staðið að sölu á eign­ar­hlut­um í fyr­ir­tækj­um í eigu bank­ans aft­ur til árs­ins 2009. Þar á meðal hvaða mat Lands­bank­inn hefði lagt til grund­vall­ar söl­unni á Borgun.

Í svari Borgunar í gær kom fram að Borgun muni fá verðmæti að upphæð 6,5 milljarðar króna í sinn hlut vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe. 4,8 milljarða eingreiðsla mun koma í hlut fyrirtækisins vegna viðskiptanna og þá fær það sömuleiðis forgangshlutabréf í Visa Inc. sem síðastnefnda fyrirtækið metur í dag að jafnvirði 1,7 milljarða króna.

Frekari verðmæti geta komið í hlut fyrirtækisins vegna afkomutengdrar greiðslu sem skiptast mun á leyfishafa í Visa Europe. Umfangið mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar á næstu fjórum árum.

Bankasýslan fær svör á morgun.
Bankasýslan fær svör á morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK