WOW auglýsir ólaunað starf segir BHM

Lögmaður Bandalags háskólamanna hefur sent flugfélaginu WOW air bréf vegna starfsauglýsingar félagsins þar sem auglýst er eftir laganema í ólaunað starf. Gerð er krafa um að laganeminn hafi lokið þriggja ára B.A. námi í lögfræði.

Í auglýsingu WOW kemur fram að starfsnámið sé 160 klukkustundir og að vinnutími sé eftir samkomulagi. Ef gagnkvæmur áhugi sé fyrir hendi að því loknu gæti sumarstarf verið í boði í framhaldinu.

„BHM gerir alvarlegar athugasemdir við auglýsingu WOW air um ólaunað starfsnám þar sem auglýst er eftir háskólamenntuðum starfsmanni með BA gráðu í lögfræði sem skilyrði,“ segir í bréfi lögmannsins sem hefur verið birt á heimasíðu sambandsins.

Þá segir að í kjarasamningum, þ.m.t kjarasamningum sem Stéttarfélag lögfræðinga eigi aðild að, sé kveðið á um hvaða lágmarkslaun skuli greidd fyrir tiltekin störf.

Ákvæði í kjarasamningum séu lágmarkskjör.

Vinnuveitendum sé þannig með öllu óheimilt að ráða til sín starfsmenn á lakari kjörum en kjarasamningar kveða á um. Samningar sem kveða á um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um séu því ógildir. 

Mörkin óskýr

Í bréfinu segir jafnframt að íslenskir háskólar hafi búið til regluverk um starfsnám nemenda í framhaldsnámi. BHM hafi ekki samþykkt regluverkið og geri sérstaklega athugasemdir við reglur lagadeildar Háskólans í Reykjavík sem gangi út á að starfsnámið sé ólaunað.

Ekki sé hins vegar kveðið á um ólaunað starfsnám í reglum atvinnunefndar Orators hjá lagadeild Háskóla Íslands.

Það sé hins vegar sammerkt með HÍ og HR að starfsnámið sé skipulagt í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki. Ekki virðist þó sem það sé gert í þessu tilviki.

Í bréfinu er tekið fram að það sé talið jákvætt ef fyrirtæki og stofnanir gefi nemendum í framhaldsnámi færi á að hagnýta þekkingu sína á atvinnumarkaðinum samhliða námi þar sem starfsnámið sé sannarlega til þess fallið að auka þekkingu nemandans í lögfræði og hæfni til að vinna að úrlausn lögfræðilegra verkefna.

„Mörkin milli starfsnáms annars vegar og ólaunaðs starfs hins vegar eru mjög óskýr og hefur BHM lagt áherslu á að greitt verði fyrir starfsnám,“ segir þá.

„ Í því tilviki sem hér um ræðir benda hæfniskröfurnar sem gerðar eru til umsækjanda í auglýsingu WOW air eindregið til þess að um ólaunað starf er að ræða. Það brýtur gegn lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.“

Frá mótmælum BHM.
Frá mótmælum BHM. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK