VÍS greiddi ekki út arð 2009 til 2013

Höfuðstöðvar VÍS.
Höfuðstöðvar VÍS. mbl.is/Styrmir Kári

Tillögur stjórnar VÍS til hluthafafundar eru í samræmi við fyrri yfirlýsingar og stefnu félagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórn VÍS sendi fjölmiðlum. Þar segir að í skráðu almenningshlutafélagi hljóta tillögur stjórnar að vera í samræmi við útgefna stefnu sem hefur verið kynnt hluthöfum og öðrum þeim sem hafa viljað kynna sér félagið.

Segir þar að stjórnin hafi skilning á því að mörgum þyki arðgreiðslan há, en ástæðan sé sú að félagið hefur farið sér hægt í að greiða arð til eigenda sinna. Á árunum 2009 til 2013 hafi ekki verið greiddur út arður hjá félaginu þrátt fyrir hagnað.

Í yfirlýsingunni er vísað til afkomutilkynningar VÍS frá 27. ágúst 2015 sem send var til Kauphallar og fjölda fjölmiðla. Þar kom fram að stjórn félagsins hefði sett samstæðunni markmið um áhættuvilja sem tæki mið af núverandi starfsemi auk neðri vikmarka. Samkvæmt markmiðunum skyldi gjaldþolshlutfall samstæðunnar samkvæmt Solvency II vera um 1,5 með neðri vikmörkum í 1,35.

„Einnig kom fram að arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum myndu taka mið af settum markmiðum. Viðskipti á markaði hafa átt sér stað á grundvelli umræddrar stefnu félagsins,” segir í yfirlýsingunni þar sem ennfremur segir að stjórn félagsins hafi ákveðið að ganga heldur skemur en markmið félagsins segir til um og hefur lagt til arðgreiðslu sem færir gjaldþolshlutfallið í 1,55 eftir arðgreiðslu.

Félagið stendur mjög sterkt fjárhagslega

„Það er 55% hærra hlutfall en Solvency II  kveður á um sem sýnir glöggt að félagið stendur eftir sem áður mjög sterkt fjárhagslega og er vel í stakk búið að takast á við skuldbindingar sínar. Hvort heldur litið er til núgildandi reglna um gjaldþol tryggingafélaga eða þeirra sem væntanlegar eru í náinni framtíð.

Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum VÍS í samræmi við lög og samþykktir félagsins og þar fara hluthafar með ákvörðunarvald sitt. Samkvæmt lögum um hlutafélög skal stjórn félags leggja fram tillögu um arðgreiðslu fyrir hluthafa á aðalfundi. Hluthafafundi er óheimilt að gera tillögu um greiðslu hærri arðs en stjórn leggur til, en hefur heimild til þess að ákvarða lægri arðgreiðslu. Hluthafafundur er réttur vettvangur til að ræða málefni félagsins

Í lögum um vátryggingastarfsemi kemur fram að iðgjöld skulu vera í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingunum felst og hæfilegan rekstrarkostnað. Afkoma af ökutækjatryggingum félagsins hefur um árabil verið óviðunandi. Líkt og Fjármálaeftirlitið benti á í tilkynningu á vef sínum í gær er mikilvægt að vátryggingafélög leggi áherslu á að grunnrekstur þeirra sé ekki rekinn með tapi, þar sem félögin geta ekki reitt sig á að fjárfestingartekjur séu stöðugar. VÍS mun hér eftir sem hingað til veita viðskiptavinum sínum eins góð kjör og þjónustu sem kostur er á hverjum tíma,” segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK